Þótt það endurspeglist ekki nægilega vel í opinberri umræðu þá hefur fjölmörgum blöskrað harkan og miskunnarleysið í máli þekkts knattspyrnumanns. Hann var sakaður um ofbeldi, viðurkenndi ósæmilega hegðun og greiddi bætur. Málinu lauk því með sátt.Nokkrum árum síðar er þetta mál rifjað upp og svo virðist sem hafa eigi bæði æruna og lífsviðurværið af knattspyrnumanninum, sem hefur gert sitt til að bæta fyrir brot sitt.

Nýjar upplýsingar sýna svo að ekki á allt sem haldið hefur verið fram í málinu við rök að styðjast.Á sama tíma eru stunduð hávær hróp um nauðgunarmenningu meðal knattspyrnumanna og umræður þeirra í búningsklefum eiga að vera til marks um það. Ekkert hefur þó frést af umfangsmiklum upptökum á klámkenndum samræðum knattspyrnumanna, sem sannað gætu fullyrðingar um grasserandi nauðgunarmenningu.

Í miklum dómsdagshávaða þar sem alls kyns fullyrðingum og ásökunum hefur verið kastað fram reynist mörgum erfitt að halda haus. Það á við um stjórn KSÍ sem þoldi ekki álagið og sagði af sér á einu bretti. Stjórnin hefði sýnt meiri manndóm með því að standa í lappirnar fremur en að lúffa fyrir múgæsingi.

Allt þetta mál er dæmi um það þegar farið er algjörlega offari. Fullyrðingum og ásökunum er kastað fram og þar sem margir fara á taugum er málið ekki rannsakað ofan í kjölinn. Yfirvegun og skynsemi fýkur út í veður og vind.Það er ekki nema von að mörgum ofbjóði, þótt fáir þori að opinbera það af ótta við fordæmingu.

Útilokun

Forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, tókst að leiða ólík öfl saman í ríkisstjórn sem hefur staðið sig bærilega. Innan Vinstri grænna eru öfl sem hafa ætíð verið mótfallin því að vinna með Sjálfstæðisflokknum, en það kom ekki í veg fyrir samstarfið. Enda var núverandi ríkisstjórnarsamstarf það skynsamlegasta í stöðunni á sínum tíma.

Nú keppast ýmsir flokkar við að hafna ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Þeir flokkar eiga það sameiginlegt að vera engir þungavigtarflokkar og þar er því engin innistæðu fyrir því að útiloka aðra. Þessir flokkar mega þakka fyrir ef einhver nennir að vinna með þeim eftir kosningar.