Skoðun

Útskúfun eða samvinna

Bandaríkjaforseti hefur verið duglegur við að æsa upp ófrið og heimsvaldastríð fyrir botni Miðjarðarhafs upp á síðkastið. Bandaríkin sögðu sig með þjósti frá samningum við Íran um eftirlit með kjarnorkuáætlun ríkisins og nú í vikunni ákváðu bandarísk stjórnvöld að stíga til fulls það ögrandi skref að flytja sendiráð sitt í Ísrael til Jerúsalem. Þessar tillitslausu, skammsýnu og stórkarlalegu ákvarðanir hafa hleypt öllu í uppnám í heimshluta sem sannarlega mátti ekki við frekari upplausn.

Óttinn við Íran

Bandarísk stjórnvöld eiga það sameiginlegt með ísraelskum að vera mjög tortryggin á Íran. Í Ísrael er því nánast tekið sem gefnum hlut að klerkastjórninni í Íran sé ekki undir nokkrum kringumstæðum treystandi. Í Ísrael byggist sá ótti meðal annars á vel rökstuddum grun um að Íran hafi stutt við ýmsa hópa sem hafa framið hryðjuverk gegn Ísrael. Þetta er þó ekki stærsta ástæðan, því allt önnur ríki—sem eru í miklu vinfengi við Bandaríkin—leggja margfalt meira til alþjóðlegra hryðjuverka heldur en Íran. Raunverulega ástæðan fyrir andúðinni á Íran er einfaldlega sú staðreynd að Íran er stórt og öflugt ríki sem ísraelsk stjórnvöld telja sig hafa ástæðu til að óttast.

Styrkur Írans liggur ekki síst í því að þar er að finna vel menntaða og tiltölulega frjálslynda þjóð. Fólkið þar er samt nákvæmlega eins og annað fólk—eins og allir sem þangað hafa komið geta vitnað um. Þegar kvölda tekur í Teheran þá dregur fólk niður gluggatjöldin og tekur upp rauðvínsflöskurnar. Það er hins vegar afturhaldssöm harðstjórn, með trúarbragðalögregluna í broddi fylkingar, sem heldur þjóðinni í skefjum.

En viljinn til frelsis er til staðar. Þetta mátti sjá á þeirri taumlausu gleði sem braust út í Íran þegar tilkynnt var að samningar hefðu náðst milli Írans annars vegar og Bandaríkjanna, Rússlands, Frakklands, Þýskalands og Bretlands hins vegar. Þetta gaf fyrirheit um aukin og friðsamlegri viðskipti og samskipi við umheiminn. Ungir Íranar, sem sáu fram á bjartari tíma, keyrðu um göturnar með ameríska fána hangandi út um gluggann, og lágu á flautunni eins og þeir væru að fagna sigri í HM eða Eurovision.

Einangrun eða opnun

Þrátt fyrir allt þá hefur afturhaldssinnuðum stjórnvöldum í Íran gengið verr en víða annars staðar að heilaþvo þjóðina í andstöðu við Bandaríkin og Vesturlönd. Þetta er líklega ástæða þess að þúsundir íbúa Teheran ruku út á götur 11. september 2001 með kerti til þess að sýna fórnarlömbum árásanna á Tvíburaturnana virðingu sína.

En nú ætla Bandaríkin að reyna að berja Íran til hlýðni með viðskiptaþvingunum og útskúfun frekar en samvinnu. Svoleiðis aðgerðir hljóma kannski mildilega í eyrum flestra. Það er hins vegar ákaflega hæpið að hægt sé að finna betri leið til þess að herða tök hinna vondu stjórnvalda heldur en einmitt að draga úr möguleikum borgaranna til þess að stunda viðskipti, auðgast, ferðast til útlanda og kynnast því sem heimurinn hefur upp á að bjóða.

Þess vegna má stórlega efast um þá hugmynd að rétta leiðin til þess að draga úr völdum öfgamanna í Íran sé að einangra landið frá umheiminum með banni við viðskiptum og öðrum samskiptum, eins og Bandaríkjastjórn virðist halda.

Það gildir nefnilega svipað um viðskiptabann eins og um loftárásirnar sem gerðar voru á óbreytta borgara í seinni heimsstyrjöldinni. Árásirnar voru gerðar vegna þess að hernaðarsérfræðingar töldu að þannig mætti draga baráttuþrek úr almennum borgurum. Kenningin var sú að þeir yrðu svo hræddir að þeir myndu þrýsta á stjórnvöld að gefast upp. Þessu var haldið fram þótt þá hafi þegar verið til staðar takmörkuð reynsla sem benti til hins þveröfuga. Bretar fundu það á eigin skinni að samstaða þjóðarinnar og baráttuþrek stórjókst þegar Þjóðverjar vörpuðu sprengjum á breskar borgir. Þeir héldu því hins vegar fram að þetta væri sérstakur eiginleiki bresku þjóðarinnar – hinir lingerðu Þjóðverjar myndu örugglega bregðast allt öðruvísi við, lyppast niður og grátbiðja um miskunn. Allt var þetta bull.

Það er líka hæpið að halda því fram að það sé góð hugmynd að kippa stoðunum undan atvinnulífi í landi eins og Íran. Miklu líklegra er að stóraukin viðskipti við landið myndu gera þarlendum stjórnvöldum erfiðara að hegða sér með þeim hætti að það ógnaði afkomu þjóðarinnar. Þar að auki eru viðskipti auðveldasti farvegur menningarstrauma, nýrra hugmynda, tísku og tækni.

Eurovision í Teheran

Íranska þjóðin umber stjórnvöld en styður þau tæplega. Allt vald sem einstaklingar og fyrirtæki í landinu öðlast er miklu líklegra til þess að gagnast til að losna við hin vitfirrtu stjórnvöld heldur en utanaðkomandi þvinganir. Viðskiptahöft bitna fyrst og fremst á almennum borgurum, drepa drauma þeirra og herðir þá fjötra sem stjórnvöld setja á venjulegt fólk.

Og Íranar eru auðvitað venjulegt fólk. Besta leiðin til þess að búa til efasemdir um að íbúar annarra landa séu öðruvísi en við sjálf er að takmarka samskipti við þá. Þetta kunna allir alvöruharðstjórar, eins og í Norður-Kóreu, þar sem gríðarleg áhersla er lögð á að koma í veg fyrir að fólk kynnist því hvernig daglegt líf fólks í öðrum löndum fer fram.

Það er ekki „venjulegt fólk“ sem ákveður að gera annað „venjulegt fólk“ að óvinum sínum. Stríðsmóður rennur ekki á nokkurn mann nema öryggi hans og afkomu sé ógnað. Bann við viðskiptum, hótanir um árásir og menningarleg útskúfun búa því til óvini úr venjulegu fólki. Friðsöm samskipti og frjáls verslun draga hins vegar úr tortryggni og mylja smám saman niður kúgunartæki vondra stjórnvalda. Eftir því sem venjulega fólkið fær meiru ráðið, því erfiðara reynist slæmum stjórnmálamönnum að knýja fram vondar fyrirætlanir sínar.

Þess vegna myndi ég ekki hafa nokkurn skapaðan hlut við það að athuga þótt Eurovision yrði haldið í Teheran á næsta ári, eða hvar sem er þar sem venjulegt fólk hefur gott af því að gleðjast með öðru venjulegu fólki og fá áminningu um hve hjörtum manna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Skoðun

Fjölgun hjúkrunar­fræði­nema við HA
Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir

Skoðun

Breytt klukka – betri líðan
Erla Björnsdóttir

Skoðun

Að breyta í verki
Sandra Hlíf Ocares

Auglýsing

Nýjast

Tækifærin í ferðaþjónustu
Arnheiður Jóhannsdóttir

Um gildar „ástæður“ gyðingaofsókna og Vísindavef Háskóla Íslands
Lára Magnúsardóttir

Skrifaðu veggjöld
Hanna Katrín Friðriksson

Sannleikurinn um elstu konuna
Þorbjörg Gunnlaugsdóttir

Hnípin þjóð
Kolbrún Bergþórsdóttir

Frá Brexit til Íslands
Þorvaldur Gylfason

Auglýsing