Það hefur flest breyst. Nú þegar hefja á sölu ríkisins á hlut í banka þá er hvorki gagnlegt né upplýsandi að sú umræða fari fram á forsendum einkavæðingarinnar um síðustu aldamót, sem var um margt misheppnuð og fór fram við allt aðrar aðstæður en bankarnir starfa við í dag. Alþjóðlega fjármálakreppan sem skall á fyrir meira en tólf árum varð þess valdandi að allt regluverk og eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækja í Evrópu og Bandaríkjunum var hert til muna. Ísland var þar ekki nein undantekning og bankar hérlendis þurfa sumpart að lúta strangari kröfum – og meiri sértækari skattlagningu – en þekkist annars staðar. Markmiðið er verðugt, að auka öryggi bankakerfisins með hliðsjón af því hversu kerfislega mikilvægt það er fyrir hagkerfið, en hin hliðin á teningnum er aukinn kostnaður og lakari arðsemi.

Hvað hefur helst verið gert? Mestu munar um að kröfur um eiginfjárhlutföll hafa verið hertar stórkostlega, frá því að þurfa að vera að lágmarki 8 prósent yfir í um 20 prósent, þannig að bankar geti staðið af sér mögulega stór efnahagsáföll. Þá er búið að bæta verulega reglur um eignarhluti í óskyldum rekstri, skorður hafa verið settar á skuldsetningu og stórar áhættuskuldbindingar, bann er við lánveitingum með veði í eigin bréfum, strangar takmarkanir eru á lánafyrirgreiðslur til virkra eigenda, reglur um bónusa eru þær ströngustu í Evrópu, kröfur um lausafjárhlutföll mun meiri og innstæðuvernd hefur verið aukin til muna.

Rökin fyrir því að Ísland eigi að vera áfram einhvers konar útlagi í hinum vestræna heimi með meirihluta bankakerfisins í fanginu eru fátækleg.

Við bankaáfallið urðu einnig augljósir þeir vankantar að Seðlabankinn, sem lánveitandi til þrautavara, hefði ekki heildarsýn yfir áhættuþætti bankakerfisins þar sem eftirlitið með þeim var á ábyrgð FME. Það var því til mikilla bóta þegar Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið sameinuðust fyrir um ári. Með því skrefi voru stjórnvöld ekki að veikja mikilvægar eftirlitsstofnanir, eins og þingmaður Samfylkingarinnar hefur haldið fram í tengslum við áformaða sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka, heldur þvert á móti að koma á fót einni öflugri stofnun til að bæta skilvirkni og eftirlit með fjármálafyrirtækjum og við framkvæmd þjóðhagsvarúðar. Seðlabankastjóri sá ástæðu til að svara slíkum fullyrðingum á opnum nefndarfundi á Alþingi í gær og sagði þær „algjörlega rangar“ og benti á að það væri „lykilatriði í því að hrunið endurtaki sig ekki að einn aðili beri ábyrgð á fjármálastöðugleika og hafi tækin til þess. Seðlabanki Íslands hefur þau.“

Það er við þessar gerbreyttu aðstæður á umgjörð fjármálakerfisins sem hefja á undirbúning útboðs á hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Rökin fyrir því að Ísland eigi að vera áfram einhvers konar útlagi í hinum vestræna heimi með meirihluta bankakerfisins í fanginu eru fátækleg. Við bankahrunið glataðist mikið traust, sem skapar skiljanlega hughrif hjá mörgum þegar rætt er um sölu á banka, en það getur samt ekki verið afsökun fyrir því að við hættum að beita þekkingu okkar og staðreyndum á efni málsins þrettán árum síðar. Þeir sem kjósa það nú fyrir stundarvinsældir verða á einhverjum tímapunkti að líta í eigin barm og þá ábyrgð sem þeir bera á að rýra traust almennings í garð bankakerfisins með málflutningi sínum.