Eitt af því sem mér fannst eftirtektarvert hjá þríeykinu, sem stjórnaði landinu okkar í mars og apríl, voru viðbrögð þeirra við gagnrýni. Þau hvöttu til hennar og sögðu að hún hjálpaði þeim.

Þetta er sjaldgæft viðhorf í dag. Við höfum sífellt minni þolinmæði fyrir gagnrýni eða öðrum skoðunum. Útlagar umræðunnar, þetta þrjóska fólk með eigin rannsóknir í alls konar málum, á erfitt uppdráttar. Sérstaklega á þetta við ef unnin hefur verið skýrsla fræðimanna um málið. Skýrslur eru nútímaútgáfan af sannleikanum.

Ekki misskilja mig, ég er almennt ekki sammála útlögum umræðunnar. Þegar þríeykið varð fyrir gagnrýni þá fannst mér nánast eins og það væri verið að ráðast á foreldra mína, svo mikið var ég ósammála. Og jafnfreistandi og það er að grípa til aðgerða, láta opinbera aðila berjast gegn upplýsingaóreiðu, þá er staðreyndin sú að umræðan sjálf leysir þetta best. Fyrir hvern Frosta Sigurjónsson og hans snöggsoðnu sóttvarnaþekkingu var töluvert stærri hópur sem tók til varna, fór ofan í hans málflutning og hrakti.

Tilburðir til að útiloka „rangar“ skoðanir bíta yfirleitt í skottið á sér og ýta jafnvel undir skoðanirnar sem verið að berjast gegn. Talsmenn þeirra breytast allt í einu úr því að vera virkir í athugasemdum yfir í að verða virtir andófsmenn sem ráðandi öfl reyna að þagga niður í. Sem gerir þá aftur áhugaverðari.

Jafnvel besta ríkisstjórn í heimi þarf öfluga stjórnarandstöðu sem heldur henni við efnið. Sama á við um skoðanir. Hinar ríkjandi skoðanir hverju sinni þurfa sína stjórnarandstöðu. Almenningur hefur aldrei verið í betri stöðu til að afla sér upplýsinga og á endanum er það í okkar höndum að mynda okkar skoðanir.