Íslendingar búa enn þá í samfélagi sem útilokar fólk. Því virðist tamara að hólfa fólk niður eftir annmörkum og veikleikum fremur en að hampa sérstöðu þess og styrkleikum.

Fyrir vikið sitja margir eftir. Þeim er ekki ætlað að komast lengra. Eitthvert stofnanaveldi, sem á víst að heita mannanna verk, afskrifar fólk í stað þess að útskrifa það.

Og þetta er staðan. Hún er mannfjandsamleg. En svona hefur þetta víst verið. Og svona skal þetta bara áfram verða.

Og það er af þessum sökum sem tugir ungmenna með þroskahömlun, sem þrá það heitara en nokkuð annað í lífinu að komast áfram til mennta að loknu námi af starfsbrautum framhaldsskólanna, standa oftar en ekki andspænis lokuðum dyrum. Þau eru komin upp á náð og miskunn yfirvaldsins um hvort þau fái inni í frekara námi – og duttlungar einir ráða því oft og tíðum hverjir reynast vera í náðinni og hverjir verða frá að hverfa.

Svona hefur þetta lífsins happdrætti verið í lífi ungmenna með þroskahömlun um langt árabil. Lengi framan af áttu þau raunar ekki heldur möguleika á að komast í framhaldsskóla, en sérhæft nám fyrir þau á starfsbrautum var þá ýmist ekkert eða í skötulíki. Það hefur lagast, þó enn eimi raunar eftir af menntahrokanum gagnvart þessum hópi landsmanna, en stúdentshúfur sem ungmenni með þroskahömlun bera að afloknu starfsbrautarnáminu skulu sko aldeilis vera í öðrum lit en þeim hvíta sem alvörustúdent­unum er einum fært að koma fyrir á kolli sínum.

En hvað er í húfi þegar húfunni sleppir? Jú, svarið er augljóst. Á hverju ári útskrifast 65 til 90 fötluð ungmenni af starfsbrautum framhaldsskólanna, en drýgindalegu kerfinu finnst það enn þá vera ekkert tiltökumál þótt stór hluti þessa hóps fái ekki að reyna á frekari námshæfileika sína og styrkleika á sviði lista, handverks, nýsköpunar, frumkvæðis og margslags fræða. Nei, það á bara að stoppa fólkið af.

Fólk eins og Láru, eitt af andlitum menntaherferðar Landssamtakanna Þroskahjálpar sem hefst í dag, en hún er séní í sagnfræði. Fólk eins Þóri, dáðan myndlistarmann, sem Listaháskólinn hafnar ítrekað. Fólk eins og Önnu Rósu, sunddrottningu sem dreymir um að kenna sund. Fólk eins og Finnboga sem þráir að verða fréttamaður.

Enn stoppar samfélagið það af. Og við skulum breyta því.