Enginn vafi er á því að kjósendur eru orðnir langþreyttir á stjórnmálum sem byggjast á átökum og skítkasti. Það er því örugglega rétt hjá hinum ágæta stjórnmálafræðiprófessor Eiríki Bergmann Einarssyni að óþol í garð átakastjórnmála hafi greitt veg Framsóknarflokksins í nýliðnum kosningum. Við þetta bætist að fólk hefur í auknum mæli horfið frá staðfastri tryggð við einn stjórnmálaflokk heldur horfir í ýmsar áttir og metur stöðuna hverju sinni.

Sjálfs sín vegna ættu stjórnmálamenn að átta sig á þessu og láta af því að stunda upp­hrópunar­stjórnmál í ríkum mæli. Slík pólitík þreytir kjósendur og fælir þá frá viðkomandi frambjóðanda. Öruggt er að hófsamur málflutningur Einars Þorsteinssonar laðaði kjósendur til fylgis við hann. Auðvitað er hann ekki einn um að vera á þessum stað. Borgarstjóri okkar, Dagur B. Eggertsson, hefur ekki verið staðinn að því að stunda upphrópunarstjórnmál. Hann er yfirleitt sanngjarn og yfirvegaður. Brýn þörf er á mönnum eins og honum í íslenskri pólitík. Auðvitað á Dagur sín feilskot, það er til dæmis skrýtið að hinn prúði borgarstjóri hafi ekki séð ástæðu til að svara símtölum frá Hildi Björnsdóttur, leiðtoga Sjálfstæðismanna í borginni.

Það er svo sem skiljanlegt að Samfylkingin skuli ekki iða af fögnuði yfir möguleikanum á því að vinna með Sjálfstæðisflokknum í borginni. Slíkt samstarf virðist langsótt, þótt það ætti alls ekki að vera ómögulegt. Það gæti meira að segja orðið skemmtilegt og spennandi.

Einkennilegt er svo að horfa upp á litla flokka í borginni keppast við að útiloka samstarf við aðra flokka. Málamiðlun er ýtt út af borðinu og um leið er gefið sterklega í skyn að andstæðingurinn hafi fátt fram að færa í pólitík. Þannig telja Sósíalistar sig vitanlega ekki geta unnið með „auðvaldsflokkunum“, það er að segja flokkum þar sem menn hafa vit á efnahagsmálum. Á sósíalistaheimilinu þykir slík þekking ekki par fín.

Það að styðja stjórnmálaflokk á ekki að vera eins og að vera meðlimur í sértrúarsöfnuði sem telur sig hafa fundið hinn eina sanna sannleika. Flest erum við svo lánsöm að eiga vini og kunningja í nær öllum stjórnmálaflokkum. Við höfnum þeim ekki vegna þess að þeir hafa aðrar þjóðfélagsskoðanir en við fylgjum, heldur sýnum þeim virðingu og skilning. Stjórnmálamenn eiga að virða pólitíska andstæðinga sína og jafnvel viðurkenna að þeir geti sitthvað af þeim lært.