Af öllum þeim sjö­tíu og fimm þúsund hrossum sem standa í lappirnar á Ís­landi hafa að­eins fimm­tán þúsund þak yfir höfuðið – og geta leitað þar skjóls fyrir þeim veður­ofsa sem ríkt hefur á landinu á undan­förnum vikum, oft með fimbul­kulda í fjúkandi byl.

Þetta þýðir að sex­tíu þúsund hestar hírast á berangri í hvaða ó­veðri sem er – og er ekki einu sinni í kot vísað, hvað þá að þeir geti leitað undir skjól­veggi af því tagi sem reglu­gerð um vel­ferð hrossa á berangri segir til um.

Ekki verður með nokkru móti séð hvaða til­gangur er með öllu þessa hesta­haldi. Og það er heldur ekki auð­velt að finna á­stæðu fyrir því að lang­sam­lega mestum fjölda ís­lenska hestsins sé út­hýst með jafn nötur­legum hætti og hér hefur verið lýst.

Rétt­lætingin fyrir þessum ó­heyri­lega mikla úti­gangi hrossa getur ekki verið sú að þau séu bara svo harð­ger og hafi vanist þessu svo öldum skiptir, þegar hitt blasir við hverjum manni sem fer um landið að vetrar­lagi að dýrin standa með klaka­brynjuna ofan á hryggnum sem hlýtur að nísta inn að beini.

Eða ætlar ein­hver að halda því fram að þykkur á­freðinn á baki þeim hafi engin á­hrif? Trúa menn því að frost­stirðningurinn hafi enga verkan á líðan þeirra?

Þeir hinir sömu ættu þá kannski að reyna það sama á eigin skinni. Full­klæddir í freranum kæmu þeir tæpast upp orði.

Efa­lítið hefur Mat­væla­stofnun, sem á að annast eftir­lit með reglu­gerð um vel­ferð hrossa, horft í gegnum fingur sér á leið sinni um landið. Annað verður að minnsta kosti ekki á­lyktað af lestri á­tjándu greinar hennar um úti­gang ís­lenskra hesta.

Þar segir að hross sem ganga úti skuli geta leitað skjóls fyrir veðri og vindum. Auð­vitað vita lands­menn að þessi regla er þver­brotin.

Í sömu grein segir að þar sem full­nægjandi náttúru­legt skjól, svo sem skjól­belti, klettar og hæðir, eru ekki fyrir hendi, skulu hross hafa að­gang að mann­gerðum skjól­veggjum sem mynda skjól úr helstu áttum. Hver skjól­veggur skal að lág­marki vera tveir metrar „og svo langur að öll hross hjarðarinnar fái notið skjóls“, svo orð­rétt sé vitnað í reglu­gerðina sem er undir­rituð af sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra haustið 2014.

Það verður ekki séð að allir hest­eig­endur hirði um þessa vel­ferð dýranna sinna.

Þess heldur virðist það vera ein­hver lenska hér á landi að eiga fleiri hesta en tölu verði komið á. Það beri vitni um karl­mennsku. En tæpast ber það vott um hesta­mennsku.