Af öllum þeim sjötíu og fimm þúsund hrossum sem standa í lappirnar á Íslandi hafa aðeins fimmtán þúsund þak yfir höfuðið – og geta leitað þar skjóls fyrir þeim veðurofsa sem ríkt hefur á landinu á undanförnum vikum, oft með fimbulkulda í fjúkandi byl.
Þetta þýðir að sextíu þúsund hestar hírast á berangri í hvaða óveðri sem er – og er ekki einu sinni í kot vísað, hvað þá að þeir geti leitað undir skjólveggi af því tagi sem reglugerð um velferð hrossa á berangri segir til um.
Ekki verður með nokkru móti séð hvaða tilgangur er með öllu þessa hestahaldi. Og það er heldur ekki auðvelt að finna ástæðu fyrir því að langsamlega mestum fjölda íslenska hestsins sé úthýst með jafn nöturlegum hætti og hér hefur verið lýst.
Réttlætingin fyrir þessum óheyrilega mikla útigangi hrossa getur ekki verið sú að þau séu bara svo harðger og hafi vanist þessu svo öldum skiptir, þegar hitt blasir við hverjum manni sem fer um landið að vetrarlagi að dýrin standa með klakabrynjuna ofan á hryggnum sem hlýtur að nísta inn að beini.
Eða ætlar einhver að halda því fram að þykkur áfreðinn á baki þeim hafi engin áhrif? Trúa menn því að froststirðningurinn hafi enga verkan á líðan þeirra?
Þeir hinir sömu ættu þá kannski að reyna það sama á eigin skinni. Fullklæddir í freranum kæmu þeir tæpast upp orði.
Efalítið hefur Matvælastofnun, sem á að annast eftirlit með reglugerð um velferð hrossa, horft í gegnum fingur sér á leið sinni um landið. Annað verður að minnsta kosti ekki ályktað af lestri átjándu greinar hennar um útigang íslenskra hesta.
Þar segir að hross sem ganga úti skuli geta leitað skjóls fyrir veðri og vindum. Auðvitað vita landsmenn að þessi regla er þverbrotin.
Í sömu grein segir að þar sem fullnægjandi náttúrulegt skjól, svo sem skjólbelti, klettar og hæðir, eru ekki fyrir hendi, skulu hross hafa aðgang að manngerðum skjólveggjum sem mynda skjól úr helstu áttum. Hver skjólveggur skal að lágmarki vera tveir metrar „og svo langur að öll hross hjarðarinnar fái notið skjóls“, svo orðrétt sé vitnað í reglugerðina sem er undirrituð af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra haustið 2014.
Það verður ekki séð að allir hesteigendur hirði um þessa velferð dýranna sinna.
Þess heldur virðist það vera einhver lenska hér á landi að eiga fleiri hesta en tölu verði komið á. Það beri vitni um karlmennsku. En tæpast ber það vott um hestamennsku.