Fjölflokkastjórnir eru nýr veruleiki í íslenskum stjórnmálum. Töluverð umræða hefur skapast um þetta nýja stjórnarform, kosti þess og galla, á undanförnum árum. Minna er rætt um fjölflokkastjórnarandstöðu sem óumflýjanlega fylgir fjölgun flokka á Alþingi. Þó hefur ekki farið fram hjá þeim sem fylgjast með stjórnmálum hve mikil áhrif sundurleitir flokkar hafa á stjórnarandstöðuna á Alþingi, bæði störf hennar og ásýnd.

Þótt nýir þingmenn ali eðlilega þá von í brjósti að geta komið hugsjónum sínum í farveg er mikilvægasta starf alþingismanns utan stjórnarmeirihluta að veita ríkisstjórninni aðhald. Þegar margir og jafnvel ólíkir flokkar eru í stjórnarandstöðu er ekki von á öðru en að hún verði sundurleit. Þetta höfum við séð undanfarin tvö kjörtímabil. Flokkar, sem hafa jafnvel lagt áherslu á samvinnu á fyrstu dögum eftir kosningar, færast í sundur um leið og stjórn hefur verið mynduð. Þetta kemur niður á því aðhaldi sem mikilvægt er að hverri ríkisstjórn sé veitt.

Vandinn sem blasir við vinstri hlið íslenskra stjórnmála er ekkert leyndarmál. Þrátt fyrir að yfir helmingur kjósenda myndi velja annað stjórnarmynstur en það sem er í kortunum er engin leið fær til að uppfylla þær óskir. Viðreisn er of frjálslynd fyrir VG og Framsókn og Pírötum er ekki treyst. Þessir flokkar fá nú annað tækifæri til að sýna samstarfshæfileika sína þegar við blasir að þeir, ásamt Samfylkingu, Flokki fólksins og tveimur Miðflokksmönnum, myndi áfram stjórnarandstöðu.

Þótt stjórnarandstöðuflokkar velji sér ekki samstarfsflokka og engin hefð sé fyrir viðræðum um samstöðu gegn ríkisstjórninni, er ekkert því til fyrirstöðu að rjúfa hefðina. Flokkar sem hafa vilja til að vinna saman í ríkisstjórn geta sýnt kjósendum hvernig slíkt samstarf gæti litið út í stað þess að hlaupa hver í sína áttina þegar íhaldsstjórn hefur verið mynduð.

Það er lítið púður í skuggafjárlögum sem einn sex manna þingflokkur gæti lagt fram sem svar við fjárlögum ríkisstjórnar. Þrír þingflokkar, Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar, gætu hins vegar komið einstaka stjórnarflokkum í veruleg pólitísk vandræði með því að koma sér saman um og leggja fram slíkt skuggaplagg ofan í fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

Slík samvinna gæti líka slegið á fordóma sem ríkja um meint hæfileikaleysi þessara flokka til forystu og gefið bæði kjósendum og stjórnmálaflokkum, sem leitað hafa á önnur mið, von um að leiðin sé enn fær.