… galaði hún.

Það fór ekki hátt, þótt það léti hátt í Ingu Sæland í vikunni þegar hún af myndarskap vísaði Frosta Sigurjónssyni út úr Egilshöllinni, en þar hefur hún haft hann í sóttkví frá því á konudaginn. Ástæðan fyrir því að ekki voru fleiri hafðir þar í einangrun var plássleysi. Upphaflega var gert ráð fyrir að Frosta yrði hleypt út við fyrstu tilslakanir í sóttvarnarmálum en það dróst vegna þess að Miðflokkurinn tók lengri tíma en ætlað var í fyrstu til þess að greina helstu samgönguleiðir úr Grafarvogi. Reyndar gekk eljusemi Miðflokksmanna út á fleira, þeir vildu sjá til þess að Gúndi Franklín kæmist með búslóð sína til Bessastaða á sem skemmstum tíma. Hann pakkar nú í akkorði og ekki í neinum póker-stíl heldur hálsbindum og nærbuxum á meðan Guðni lætur niður buff og bleiur.

Nokkur lukka þykir að Frosti skuli hafa sloppið lifandi úr kvínni því gervigrasið í Egilshöll er hættulegra en COVID-19, samgönguáætlun og samninganefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga til samans.

Á morgun verður gengið að kjörborðinu og forseti kosinn, sem er víst formsatriði ef marka má ómarktækar skoðanakannanir. Á þriðjudaginn verður svo gengið að barborðinu og kosinn formaður SÁÁ. Til þess að fá smá spennu í morgundaginn hefði auðvitað átt að slá þessum kosningum saman, enda skiptir það þjóðina ekki minna máli hver ræður á Vogi en hver situr á Bessastöðum. Reyndar mætti sameina embættin mín vegna.

Seljum Bessastaði. Kaupum sæmilegt veður, SÁÁ-álfinn og sýnatökupinna og fyllum Egilshöll af Rúmenum. Ferðumst innanlands á meðan við enn rötum borgarlínulaust á milli húsa. Drífum okkur öll sem eitt, ÚT!