Nýlega var ég spurð hvort það væri ekki erfitt að vera í mínu starfi (klínískur sálfræðingur) og heyra um erfiðleika fólks. Spurningin vakti mig til umhugsunar og svarið var einfalt. Nei, það væri alls ekki erfitt að heyra um áföll, neikvæðar tilfinningar og erfiða lífsreynslu sem fólk sem kemur til mín er að takast á við. Margt fólk er algjörar hetjur í að takast á við vanda sinn sem ég dáist að.

Það sem er erfitt við mitt starf og íþyngir mér og mörgum kollegum mínum er vitneskjan um langa biðlista og það fólk sem þjáist en kemst ekki að hjá sálfræðingum og öðru fagfólki eða leitar ekki aðstoðar.

Sálfræðingar hafa lært og fengið þjálfun í að veita þá meðferð sem rannsóknir sýna að skilar bestum árangri fyrir flesta (hugræn atferlismeðferð). Talið er að ein af hverjum fjórum manneskjum þjáist af geðrænum vanda á hverjum tíma. Það sem verra er að talið er að minna en þriðjungur þeirra fái viðeigandi meðferð. Margir leita sér ekki aðstoðar og aðrir fá ekki rétta meðferð.

Hvenær ætlum við sem samfélag að horfast í augu við það að ómeðhöndlaður geðrænn vandi skapar gríðarlegan sársauka, kostnað, heilbrigðisvanda og getur því miður leitt til sjálfsvíga en um 40-50 falla fyrir eigin hendi árlega eins og kemur fram í myndinni „Út úr myrkrinu“ sem ég hvet alla til að sjá.

Ég velti fyrir mér hvernig fjárlög og fjármálaáætlanir næstu ára muni tryggja fólki sem þjáist leið út úr myrkrinu þangað sem það getur þrifist, vaxið og dafnað í okkar samfélagi.