Gamalt og rótgróið fyrirtæki sem flestir Reykvíkingar þekkja skellti í lás í vikunni. Björnsbakarí lokaði dyrum sínum við Fálkagötu 18 í Vesturbæ Reykjavíkur eftir áratuga rekstur. Þriðja útibúið sem fyrirtækið lokar á undanförnum tveimur árum. Breyttar neysluvenjur og aukin samkeppni voru ástæður þess að reksturinn gekk ekki upp, að sögn eigenda fyrirtækisins.

Neysluhættir fólks hafa breyst svo um munar á undanförnum árum og eru tilefni til vangaveltna. Sennilega hefur vakning um heilsusamlegt mataræði spilað inn í þá staðreynd að Björnsbakarí heltist úr lestinni en á sama tíma spretta ný bakarí á borð við Brikk og Brauð & Co eins og gorkúlur í hverju hverfinu á fætur öðru. Hverju sætir?

Kannski spila vinsældir samfélagsmiðla eins og Instagram rullu. Eins dapurlega og það kann að hljóma þá þurfa fyrirtæki að takast á við þann raunveruleika að hið gamalgróna er ekki endilega komið til að vera.

En hver er munurinn á rekstri þessara fyrirtækja? Annað er gamalt, hitt er nýtt. Bæði bjóða upp á súrdeigsbrauð og kanilsnúða, á meðan aðeins annað þeirra nýtir sér stafræna markaðssetningu og samfélagsmiðla. Þó ekki sé hægt að fullyrða um að samfélagsmiðlar hafi gert út af við Björnsbakarí þá má velta fyrir sér breyttu umhverfinu.

Neytendur verða stöðugt kröfuharðari og fara fram á meira úrval, meiri gæði – og síðast en ekki síst myndræna framsetningu sem samræmist svokallaðri glansmynd sem margir viðhafa á netinu. Samhliða þessu þarf þjónustan að vera hágæða og vöruverð lágt. Hugsanlega verða þessar kröfur fyrirtækjum ofviða.

Það liggur fyrir að fyrirtæki sem ekki fylgja stefnum og straumum hvers tíma eiga erfitt uppdráttar, ólíkt því sem tíðkaðist áður fyrr, þegar orðsporið eitt og sér dreif þau áfram og flutti fjöll. Núna hins vegar þurfum við að takast á við þá staðreynd að rykmoppur, matarolíur og maskarar rjúka út sem aldrei fyrr með tilkomu áhrifavalda á Instagram. Ásókn í veraldleg gæði eykst stöðugt og almenningur virðist nánast varnarlaus gagnvart taumlausum auglýsingunum sem sækja að úr öllum áttum.

Breytingar þurfa þó ekki að vera af hinu slæma enda hafa samfélagsmiðlar tengt neytandann og fyrirtækin betur saman. Hins vegar hefur gagnrýnin hugsun sjaldan verið eins mikilvæg, ekki síst vegna ákalls um breyttan lífsstíl og minni neyslu, og tímabært að staldra við og hugsa hvort raunveruleg þörf sé á nýjum andlitsmaska eða annarri flík í skápinn.

Það er staðreynd að neysluhyggja hefur færst í aukana en með upplýstri umræðu og vitundarvakningu er hægt að sporna við þeirri þróun. Tækifærin í breyttu samfélagi eru endalaus. Grípum þau og nýtum til jákvæðra verka.