Sá fáheyrði atburður gerðist fyrr í vikunni að sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra urðu uppvís að því að brjóta sóttvarnalög. Gerðust þau sek um ólögmæta frelsissviptingu, meðal annars á íslenskum ríkisborgurum og börnum, með því að skylda þau til dvalar í svonefndu sóttvarnahúsi. Varla eru til þeir lögspekingar sem ekki sáu það fyrir að slíkt fyrirkomulag væri skýrt brot á sóttvarnalögum, og raunar má telja líklegt að þarna hafi mannréttindaákvæði í stjórnarskrá sömuleiðis verið brotin. Því á ekki að taka af léttúð.

Sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra létu sér þó ekki segjast, heldur settu og framfylgdu af hörku ólögmætri reglugerð. Ákvörðun sóttvarnalæknis gekk „lengra en lögin heimila“, segir orðrétt í niðurstöðu dómsins. Þá minnir dómarinn einnig á kröfur um meðalhóf, sem margir hafa einmitt séð ástæðu til að ítreka vegna þeirra hörðu aðgerða sem gripið hefur verið til. Ráðherra og sóttvarnalæknir hafa tekið niðurstöðunni illa – hún er sögð óheppileg og geta sett sóttvarnir í uppnám. Formaður læknafélagsins gekk lengra og sagði úrskurðinn „aðför“ að sóttvarna­aðgerðum. Dómstólar hafa staðið vörð um mannréttindi í þessu tilviki, en hvað gerist ef stjórnmálamenn og opinberir starfsmenn beina kröftum sínum að því að grafa undan dómstólum með slíku framferði? Til að bæta gráu ofan á svart ætluðu þau að neita að afhenda upplýsingar sem geta varpað ljósi á þessa illskiljanlegu ákvörðun. Á hvaða vegferð eru stjórnvöld?

Ráðherrum, meðal annars í þeirri ríkisstjórn sem nú situr, hefur verið gert að taka pokann sinn fyrir minni sakir.

Enginn efast um mikilvægi sóttvarna, þótt eðlilega sé deilt um hversu langt eigi að ganga, en þær verða að standast lög. Heilbrigðisráðherra hefur ekki getað gefið neinar haldbærar skýringar á þeirri dræmu stöðu sem er uppi í bólusetningum, sem eru á hennar ábyrgð, og nú bætist við að hún gerist sek um brot á sóttvarnalögum. Ráðherrum, meðal annars í þeirri ríkisstjórn sem nú situr, hefur verið gert að taka pokann sinn fyrir minni sakir. Af því verður hins vegar auðvitað aldrei og ekki er vitað til þess að nokkur ráðherra Sjálfstæðisflokksins hafi séð ástæðu til að tjá sig um þessi réttindabrot á íslenskum borgurum. Þeir hafa kosið að sitja þegjandi undir þessari niðurstöðu.

Nú hefur orðið sú stefnubreyting, tekin af sóttvarnalækni, að útrýma skuli veirunni í stað þess að fletja kúrfuna og lifa með einstaka smiti sem upp kemur. Þetta er gert á sama tíma og enginn er rúmliggjandi á sjúkrahúsi vegna kórónaveirunnar. Fyrir þeirri stefnu kunna að vera góð rök, en þau þurfa þá að koma mun betur og skýrar fram – sem og samfélagslegi kostnaðurinn af svo umfangsmiklum lokunum – en ráðherra ferðamála sagði það í lok síðasta mánaðar „útópíu“ að stefna að veirufríu landi. Á sama tíma og gengið er enn lengra í að herða sóttkvíarfjötrana er lítil umræða um það hvenær og hvernig við ætlum að feta okkur út úr þessari frelsissviptingu, koma lífinu í fyrra horf, heldur heyrast aðeins þær raddir sem magna upp óttann hjá almenningi og minna okkur sífellt á þær ógnir sem eiga flestar það sameiginlegt að koma frá útlöndum. Við erum á hættulegri braut.