Framsóknarflokkurinn er ótvíræður sigurvegari alþingiskosninganna um nýliðna helgi, ásamt raunar Flokki fólksins sem kom, sá og sigraði á lokasprettinum.

Fátt er líkt með þessum tveimur flokkum nema ef vera kynni að báðir hafa þeir getað verið þeir sjálfir um árabil, hafa hvorki liðið fyrir innanflokksátök né verið aðþrengdir af öðrum flokkum á sama róli í stjórnmálunum, en þar fyrir utan hafa foringjar þeirra verið trúverðugir.

Af þessum tveimur flokkum sætir sigur Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, þó meiri tíðindum en eitilhörð endurkoma Ingu Sæland á síðustu dögum kosningabaráttunnar.

Sigurður Ingi hefur laðað til sín fylgi Framsóknar á nýja leik eftir erfiðan og andstyggilegan klofning innan flokksins eftir fjármálahneyksli fyrrverandi formanns flokksins sem gekk úr húsi og hélt á bak á nýjum hesti þjóðmálanna.

Sá hinn sami er annar tveggja minnipokamannanna í kosningunum á þessu hausti, rétt treður marvaðann við fimm prósenta mörkin og er heppinn að haldast á floti, inntakslaus að miklu leyti og gott ef ekki áhugalaus eftir margra ára hildi í húsinu við Austurvöll.

Formaður Samfylkingarinnar verður sömuleiðis að hugsa sinn gang. Flokkurinn er á einhverju pólitísku iði sem setur hann utan myndar í hugum fólks, en ekki hjálpuðu heldur innanmeinin í uppstillingu á lista flokksins sem voru honum dýrkeypt.

Sjálfstæðisflokkurinn má nokkuð vel una við afrakstur helgarinnar sem er líklega ígildi þægilegs varnarsigurs, en fylgi hans er vel að merkja enn þá í kringum sögulegt afhroð flokksins frá því fyrir tólf árum. Og það segir auðvitað sína sögu um stöðu flokksins – og raunar formannsins líka – að núorðið sættir hann sig við svoleiðis útkomu.

Nýlegir flokkar á borð við Pírata og Viðreisn sem báðir tveir eru nokkuð óljóst mengi á litrófi stjórnmálanna, ýmist hægra megin við miðju eða miðju megin við hægri, en klárlega frjálslyndir og alþjóðasinnaðir, náðu sínu fyrirséða fylgi, en engu umfram það. Það merkir að þeir eru komnir til að vera, en ekkert endilega til að sigra.

Og Vinstri græn? Þau lifðu sósíalistana af, nýjan og líflegan flokk sem hafði ekki erindi sem yfirlýsingar í íslenskri pólitík. Og spurningin er þá þessi í íslenskri pólitík á haustmánuðum: Mun Katrín Jakobsdóttir lengja líf núverandi stjórnar, eða leitar Sigurður Ingi Jóhannsson á önnur mið?

Hann ræður.