Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland gáfu út leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja fyrst árið 2004 og hafa uppfært reglulega. Hugtakið „góðir stjórnarhættir“ heyrði ég fyrst á námskeiði hjá Rannsóknarmiðstöð um góða stjórnarhætti í HÍ. Stofnuð árið 2008 að frumkvæði dr. Eyþórs Ívars Jónssonar, rannsakanda góðra stjórnarhátta, sem árin fyrir hrunið árið 2008 var leiðandi í aukinni þekkingu og vitundarvakningu á þessu sviði. Námið veitti mér viðeigandi þekkingu til stjórnarsetu, ég starfa nú á þriðja ári af fjórum í stjórn FKA, sem einkennist af hugsjón og metnaði í umboði 1.200 kvenleiðtoga og stjórnenda í atvinnulífinu. 

Nú þegar raddir um niðursveiflu heyrast víða í samfélaginu, samdráttur og hriktir í stoðum fyrirtækja, þá vil ég halda í þá staðföstu trú að margt hafi breyst frá því árin fyrir hrun árið 2008, að við séum reynslunni ríkari til að takast á við niðursveiflur. En minningar um kreppu á 10 ára fresti frá barnæsku sá efasemdaröddum í huga mér. Vil ég nýta tækifærið til að hvetja stjórnir til að innleiða góða stjórnarhætti, gæta að fjölbreytni og innleiða reglulegt sjálfsmat stjórna. Taka FME til fyrimyndar sem innleiddi árið 2017 að stjórnir tiltekinna banka, sparisjóða, vátryggingafélaga, lífeyrissjóða og íbúðalánasjóðs myndu innleiða reglulegt sjálfsmat í þeim tilgangi að kortleggja þætti sem nauðsynlegir eru til að stjórn eftirlitsskylda aðilans hafi í heild sinni og komi auga á úrbótatækifæri. 

Samkvæmt Hagstofu Íslands í lok árs 2017 voru konur 26,1% stjórnarmanna fyrirtækja sem greiða laun og eru skráð í hlutafélagaskrá en 32,6% hlutfall kvenna í fyrirtækjum með 50 launþega eða fleiri. Þegar ég hugsa til fjölbreytileika og þekkingar félagskvenna í FKA, velti ég því fyrir mér hvernig standi á því að lög um kynjakvóta frá árinu 2013 hafi ekki skilað að minnsta kosti þeirri stöðu sem lögin kveða á um, að fyrirtæki með 50+ starfsmenn tryggi að hlutfall hvors kyns í stjórn sé ekki undir 40%. Einnig þykir mér undarlegt að sjá ekki hærra hlutfall kvenna í æðstu stjórnunarstöðum í fyrirtækjum á Íslandi.
 
Mér er minnisstæð saga frá reynsluríkum formanni stjórnar fyrirtækis á Íslandi, en sagan er rannsóknarefni út af fyrir sig. Konur fremur en karlmenn spyrja oftar krefjandi spurninga við stjórnarborðið, sem leiða m.a. til vandaðri verkefna og úrlausna til langtíma litið, hægðu á hraða sem einkenndi fyrri stjórnunarstíl án þeirra. Þá spyr ég hvort það sé ekki einmitt sú fjölbreytni sem stjórnir þurfa í dag?

Höfundur er Msc, með stjórnandi FKA og viðurkenndur stjórnarmaður