Stjórnmál hljóta að fjalla um framfarir. Þau geta ekki hverfst um annað en úrbætur. Og það er auðvitað áhugavert að eiga orðastað við stækustu íhaldsöflin um þessi atriði; vilja þau virkilega standa í stað, ekki breyta neinu, er hagsæld almennings best komið fyrir í fortíðinni?

Þetta er höfuðspurning stjórnmálanna – og hún varðar líf alls launafólks, atvinnulíf og rekstur heimilis – og hún skiptir í rauninni öllu máli um þróun samfélags og hvernig íbúum þess reiðir af í hvunndagslífinu.

En hvernig blasir þá þjóðríkið Ísland við í þessu samhengi? Hvert er svar þess við svona ágengum spurningum?

Það er því miður nokkuð augljóst.

Á Íslandi er rekið þjóðfélag, miklu fremur en samfélag.

Þetta er raunaleg staðreynd, en hún er í sannara lagi. Og kemur þar margt til. Eitruð misskipting hefur verið fest í sessi á milli ofsaríka minnihlutans sem fengin hefur verið áskrift að helstu auðlind þjóðarinnar – og svo hinna sem mega sætta sig við brauðmolana sem hrynja af gnægtaborðinu ef það er nægilega hrist.

Og þessi eitraða misskipting birtist líka í afstöðu embættismannakerfisins sem mestu ræður til öryrkja og annarra þjóðfélagshópa sem standa höllum fæti í frekjukasti íslenskrar yfirstéttar. Hún liggur öndverð fyrir ungum börnum á biðlistum. Og hún blasir ekki síður við eldra fólki sem löngum hefur verið afgangsstærð í íslensku samfélagi – og má raunar ekki veikjast án þess að henni sé komið fyrir á göngum spítalanna.

Og hvernig er svo tekið á móti unga fólkinu í landinu sem ætlar af vanefnum að koma sér þaki yfir höfuðið? Blasir þar eitthvert réttlæti við? Það er varla. Því er nauðugur sá eini kostur að greiða andvirði íbúðanna sinna svo nemur fjölda skipta, á gersamlega ófyrirsjáanlegum vöxtum og verðtryggingu sem er álíka stöðugt og veðurfarið hér á norðurhjara.

En það er ekkert gert í þessu. Stjórnmálin á Íslandi virðast snúast um eitthvað allt annað en umbætur. Þau gapa stundum á torgum – og glennikjafturinn getur á stundum verið nægilega orðljótur svo hann rati í fésbókarfærslu, en stefnufestan og framtíðarsýnin er ekki að þvælast fyrir flokkunum sem stjórna þessu landi – og raunar mega stjórnarandstöðuflokkarnir líka taka sneiðina til sín.

Íslensk stjórnmál fjalla nefnilega ekki um framfarir. Það liggur við að þeim sé meira umhugað um afturför.