Árið 2021 fjölgaði íbúum Hafnarfjarðar um 73 eða 0,02%, en árið á undan hafði íbúum fækkað í fyrsta skipti frá árinu 1939. Á sama tíma er ekkert lát á mikilli fjölgun íbúa hjá nágrannasveitarfélögunum, til dæmis fjölgar íbúum í Garðabæ um 760 (4,3%) og Mosfellsbæ um 437 (3,5%), sem er umtalsvert meira en í Hafnarfirði. Fjölgun um 73 er langt undir áætlunum bæjarins sem gera ráð fyrir 1,2-2,5% aukningu eða 335-1.260 íbúum á ári. Tölurnar tala sínu máli og vitna um þá stöðnun sem ríkt hefur í skipulags- og byggingarmálum undanfarin ár í Hafnarfirði, en síðastliðin átta ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið með þau mál í Hafnarfirði.

Þegar tölur um íbúa eru skoðaðar nánar er fækkunin mest meðal ungs fólks og árið 2021 fækkaði til dæmis mest í aldurshópnum 21-30 ára. Það er aldurshópurinn sem er að flytja að heiman, enda er meðalaldur fyrstu kaupenda um 30 ár. Fækkun í þessum aldurshópi merkir að þau eru ekki að finna húsnæði í Hafnarfirði við hæfi, þó að meðalverð á fermetra sé almennt lægra í Hafnarfirði en í nágrannasveitarfélögum. Unga fólkið er líka sá hópur sem á börn og ef það flytur burt, þá fækkar einstaklingum sem búa í hverri íbúð og íbúum bæjarins fækkar.

Þessi fordæmalausa stöðnun vitnar til um þreytu og úrræðaleysi meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks við stjórn bæjarins. Eina svar þeirra er að það sé bjart fram undan í Hafnarfirði og vísað er til framtíðaruppbyggingarsvæða og úthlutaðra lóða, þar sem byggja á í framtíðinni. Þessi sami söngur hefur hljómað undanfarin ár, en ekkert breytist og engar alvöru aðgerðir eru boðaðar, áfram ríkir glundroði og stöðnun. Sagan staðfestir að stærstu framfaraskrefin voru stigin og mesta gróskan var undir forystu jafnaðarmanna í Hafnarfirði.

Hér þarf að bregðast við með því að setja í forgang uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í samstarfi við fólkið í bænum. Einnig með áherslu á fjölbreytt og hentugt húsnæði fyrir alla, en einkum fyrstu kaupendur og fjölskyldufólk.