Atburðirnir sem hófust með útbreiðslu kórónaveirunnar í lok árs 2019 eru án nokkurs vafa þeir afdrifaríkustu og markverðustu sem orðið hafa í okkar heimshluta frá síðari heimsstyrjöld. Engu skiptir hvort við fáum leið, eða jafnvel algjört ógeð, á umfjöllun, aðgerðum, veikindum, vangaveltum og pistlaskrifum um ástandið—viðbrögð heimsins og einstaka landa við Covid-19 faraldrinum munu hafa afgerandi áhrif á velmegun og vellíðan fólks í mörg ár og jafnvel áratugi.

Hröð viðbrögð við óvissunni

Þegar fyrstu fréttir fóru að berast um veikindi í Kína í byrjun árs, fóru viðvörunarbjöllur að hringja um heim allan, en mjög misjafnt var hversu mikið mark var tekið á þeim. Óvissan var algjör og ótti greip um sig.

Strax í byrjun upphófust vangaveltur og skoðanaskipti um alvarleika veikindanna, mögulegar smitleiðir, meðferðir og réttlætanlegar aðgerðir í samfélögum til þess að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Í ljósi óvissunnar má segja að ábyrg stjórnvöld hafi á þeim tíma ekki haft önnur úrræði en að fara eins varlega og frekast var unnt, enda ákváðu flest lönd í byrjun mars að grípa til aðgerða sem höfðu þann tilgang að fletja harkalega niður útbreiðslu veirunnar. Þetta var ekki síst gert vegna þess að talið var að óheft smit kæmi til með að setja alla heilbrigðisþjónustu úr skorðum, en einnig vegna þess að ekki var vitað hversu hættulegur sjúkdómurinn sjálfur kæmi til með að reynast. Hér á landi var farið fyrr af stað en víðast og gripið til harðari aðgerða; til dæmis með því að setja heimkomufarþega beint í sóttkví eftir dvöl á áhættusvæðum sem íslensk yfirvöld skilgreindu á undan öllum öðrum.

Eins og með flest í þessu máli er líklega of snemmt að fullyrða; en margt bendir til þess að þessi viðbrögð í upphafi faraldursins hafi verið ótrúleg blessun fyrir íslenskt samfélag. Betur tókst að hemja veikindin en víðast og það án þess að gripið væri til harðneskjulegra og ómanneskjulegra úrræða, eins og almenns útgöngubanns og almennrar skyldu til grímunotkunar. Yfirvöld hér hafa nefnilega haldið sig við þau úrræði sem sýnilega hafa virkað best—en ekki þau sem sýnast virka best, eins og stjórnmálamenn sums staðar hafa freistast til að gera.

Þessi góði árangur hingað til endurspeglast meðal annars í því að dauðsföll á Íslandi eru fá í alþjóðlegum samanburði. Ef reiknaður er fjöldi andláta á hverja 100 þúsund íbúa þá eru þau 2,7 á Íslandi—færri en í Danmörku (10,7), Finnlandi (6,0) og Noregi (4,7); og miklu færri en í Þýskalandi (44,2) og Svíþjóð (56,4).

Aukin þekking og meiri yfirvegun

Óvissan var algjör í upphafi. Sumir héldu því fram að sjúkdómurinn væri ekkert hættulegri en venjuleg flensa eða kvef. Við vitum núna að hann er miklu hættulegri en það. Aðrir héldu að hann væri eins hættulegur og sögufrægar drepsóttir fyrri alda. Við vitum líka að svo slæmur er hann ekki.

Með minnkandi óvissu um alvarleika ógnarinnar myndast tækifæri til þess að taka yfirvegaðri ákvarðanir um eðlileg viðbrögð. Þess vegna er ekki endilega réttlætanlegt að nota sömu aðferðir og sömu rök til frambúðar eins og fyrst þegar veiran skaut upp kollinum.

Ef upp kemur ný tegund farsóttar í heiminum, sem hugsanlega gæti verið jafnhættuleg og drepsóttir fyrri alda, þá væru rétt viðbrögð að beita öllum tiltækum ráðum til þess að forðast veikina. Eðlileg varnarviðbrögð þegar upp koma óvissar og hættulegar aðstæður eru að vilja loka sig (og sína) af, skella í lás og vilja helst bíða af sér aðsteðjandi hættu. Það er rökrétt líka þangað til betri upplýsingar fást. Ef við komumst smám saman nær sannleikanum um hættuna þá breytist líka það sem hægt er að kalla rökrétt viðbrögð.

Eftir því sem tíminn líður safnast saman reynsla og þekking. Annars vegar safnast saman bætt þekking á eðli sjúkdómsins, smitleiðum, áhættuhópum og þess háttar; og hins vegar verður til aukin þekking á því hvernig hægt er að bregðast við sjúkdóminum; betri árangur næst í meðhöndlun þeirra sem veikjast og hægt er að fara sífellt markvissari og minna íþyngjandi leiðir til þess að takmarka útbreiðslu sjúkdómsins. Sá sem skellir í lás í óvissunni getur leyft sér að gægjast út þegar hægt er að leggja yfirvegaðra mat á áhættuna.

Lokað land eða opið samfélag?

Meðan óvissan var allsráðandi var skiljanlegt að margir vildu loka landinu alveg og reyna að koma fullkomlega í veg fyrir að veiran bærist hér inn. Ísland hefur reyndar gengið mjög langt í því að setja upp varnir á landamærunum, en hingað til hefur ekki verið unnið út frá því að þær komi algjörlega í veg fyrir að smit berist inn, þær dragi einungis úr fjöldanum. Reynsla annarra þjóða, svosem eins og Færeyinga og Nýsjálendinga, sem hafa haft uppi miklu harðari landamæraaðgerðir en Íslendingar, bendir til þess að það kunni að vera óskynsamlegt að hafa einhvers konar fullnaðarsigur gegn veirunni að markmiði.

Upp á síðkastið hefur því verið varpað fram sem tveimur valkostum að annaðhvort þurfi að loka meira á landamærunum eða loka meira innanlands. Þetta hefur meðal annars stuðlað að flokkadráttum milli þeirra sem hafa áhyggjur af kennslu í skólum og hinna sem sjá fram á efnahagslegt hrun og atvinnuleysi í einkageiranum. Með aukinni þekkingu og reynslu ætti að vera hægt að komast hjá því að mála valkostina þessum litum, og allsherjarlokanir sem þóttu nauðsynlegar í óvissunni eru miklum mun ólíklegri í samfélagi sem lærir að „lifa með veirunni“. Lönd, eins og Nýja-Sjáland, sem ekki hafa byggt upp þolgæði gagnvart því að veiran komist inn í landið, eiga hins vegar á hættu að minnsta bakslag í sóttvörnum setji allt samfélagið í uppnám, líkt og gerst hefur þar á síðustu dögum.

Yfirvegun er góð sóttvörn

Meðalhóf og yfirvegun hafa að mestu einkennt íslenskt samfélag í gegnum þetta ástand hingað til. Þetta á við um heilbrigðisyfirvöld, fjölmiðla, stjórnmálafólk, atvinnulífið og almenning. Þetta, ásamt góðum ákvörðunum í upphafi farsóttarinnar, hefur líklega gert það að verkum að mörg dæmi eru um fólk sem sækist eftir að koma hingað í skjól frá Covid, en fá dæmi um að fólk flýi héðan af sömu ástæðu. Víða um heim hafa bæði stjórnmálamenn og fjölmiðlar nefnilega farið fram ýmist af algjörri taugaveiklun eða fullkomnu kæruleysi. Þetta hefur leitt til þeirrar undarlegu stöðu að sóttvarnaráðstafanir, til dæmis í Bandaríkjunum, eru orðnar að pólitískum hráskinnaleik. Það væri mikil blessun ef slíkt gerist ekki á Íslandi, þótt vissulega þurfi að taka ýmsar pólitískar og umdeildar ákvarðanir.

Ákvarðanir næstu missera munu hafa meiri áhrif á farsæld þjóðarinnar heldur en þær sem teknar hafa verið undanfarna sex mánuði. Við stöndum á mjög traustum grunni eftir að hafa látið skynsemina og góða dómgreind ráða hingað til. Nú, þegar óvissan um veiruna sjálfa hefur minnkað, þarf að horfast af sjálfstrausti í augu við nýja áhættu. Sú áhætta er ein af mörgum sem við lifum með. Í góðu samfélagi lögum við okkur að slíkri áhættu af yfirvegun, en látum hvorki hana né óttann við hana stjórna okkur.