Ein sú mest íþyngjandi ráðstöfun sem gripið er til í samfélagi manna er að svipta þá frelsi sínu. Til þess þurfa að liggja ríkar ástæður og ákvörðunin þarf að styðjast við skýr lagafyrirmæli.

Um þessar mundir eru þúsundir manna sviptir frelsinu hérlendis og þeim skipað í sóttkví eða einangrun á grundvelli sóttvarnalaga. Að auki hefur frelsi hinna verið stórkostlega skert með því að setja fjöldamörk á samkomur, mæla fyrir um lágmarksfjarlægð á milli fólks, banna eða takmarka ýmiss konar starfsemi, svo sem íþróttastarfsemi og veitingahúsarekstur og tilmæli um að halda sig í heimahögum. Þá er ónefnt það misráð að loka landamærum.

Allt setur þetta líf okkar úr skorðum sem var þó nægjanlega úr lagi gengið fyrir. Sumir hafa misst lífsviðurværi sitt að hluta eða öllu leyti og ótti og kvíði grefur um sig.

Þessar aðgerðir eru byggðar á minnisblöðum frá sóttvarnalækni til heilbrigðisráðherra, sem eftir atvikum ræðir þær í ríkisstjórn áður en þær öðlast gildi stjórnvaldsfyrirmæla. Einhver misbrestur hefur þó orðið á því síðastnefnda undanfarið.

Við trúum því að nauðsynlegt sé að berjast gegn eyðandi afli vágestsins, en höfum gripið til svo stórtækra viðbragða að líkja má við að meðalið eyðileggi nú meira en því var ætlað að lækna.

Við höfum búið við lýðræðislegt fyrirkomulag þar sem við kjósum fulltrúa til setu á Alþingi til að setja lög og úr þeim hópi er að jafnaði valið fólk til að manna framkvæmdavaldið sem gefur út fyrirmæli, annað hvort á eigin spýtur eða felur stofnunum sínum að gera það. Lykilatriði í því er að þau fyrirmæli verða að eiga sér stoð í lögum og mega ekki vera í andstöðu við lög.

Ákvarðanir stjórnvalda í tengslum við sóttvarnir undanfarið hafa sumsé byggst á minnisblaði. Nær án undantekninga hafa þær ákvarðanir verið samhljóða minnisblaðinu.

Nú er rétt að fram komi að gengið er út frá að allir sem að þessu máli koma séu að reyna sitt besta í baráttunni við óhræsið, en þetta fyrirkomulag er óheppilegt og þegar svo langur tími líður þar sem takmörkunum og frelsisskerðingum er beitt án afláts, eykst krafan um að til kasta Alþings komi.

Í Fréttablaðinu í vikunni var greint frá því að efasemda gætti meðal þingmanna og ráðherra eins af stjórnarflokkunum um sóttvarnaaðgerðir heilbrigðisráðherra og hvernig að þeim er staðið. Í kjölfarið var haft eftir sóttvarnalækni og yfirlögregluþjóni úr þríeykinu að þjóðin þurfi að flykkjast að baki aðgerðunum, líkt og landsliði í kappleik. Lítið var gert úr fréttinni með því að fullyrða að úr lausu lofti sé gripið að óeining sé um aðgerðirnar og það sé orðum aukið.

Sérstakur kapítuli út af fyrir sig er hvað menn segja frammi fyrir myndavélum, en ummælin hljóta að teljast sérkennileg. Með þeim hefur verið stigið langt út fyrir verksvið þeirra sem létu þau um munn sér fara.

Ákall um samstöðu er góðra gjalda vert en þegar ekki er betur gengið um grundvallarmannréttindi er við því að búast að samstaðan bili.

Þá verða ráðstafanirnar úr lausu lofti gripnar.