Í dag er uppstigningardagur, þessi sérstaki helgidagur sem boðar sitt frí á fimmtudegi, degi of snemma. Ekki er nafn þessa dags eins skemmtilegt og síðasti fimmtudagsfrídagurinn, sumardagurinn fyrsti. Ef þú gúgglar uppstig þá ertu strax dreginn inn í byggingarreglugerð þar sem fjallað er um uppstig og framstig. En þó tröppur séu þarfaþing þá eru þær ekki ástæðan fyrir nafngift þessa ágæta dags.

Ég bjó eitt sinn í Danmörku en þar heitir dagurinn Kristi himmelfartsdag. Dagurinn sem Kristur fór til himna. Þar er merkingin klár og skýr. Samkvæmt Wikipedia ákvað Ellimálanefnd Þjóðkirkjunnar að gera daginn að kirkjudegi aldraðra á Íslandi árið 1982, sem var einmitt ár aldraðra.

Þannig að ef þú, kæri lesandi, ert trúrækinn eldri borgari þá er þetta ekki aðeins dagur til að minnast himnafarar frelsarans heldur einnig tilvalinn dagur til að drífa sig í kirkju. Og talandi um fimmtudaga. Fyrir viku fékk ég boð um bólusetningu. Allt gekk vel og ég gekk glaður út í sólina með bóluefni streymandi um æðarnar. Mikið var lífið fallegt!

Allt þangað til ég vaknaði um nóttina við taktfast sippið í nágranna mínum. Að auki var ég reyndar orðinn heitur mjög og kenndi mér meins í liðum og höfði milli þess að um mig hríslaðist kaldur sviti. Verst var þó þetta sipp sem reglulega vakti mig frá værum blundi. Síðar um nóttina áttaði ég mig þó á að béskotans sippið var í raun minn eigin hjartsláttur sem hafði vakið mig með þessum ranghugmyndum.

Ég náði aldrei að verða nægjanlega ruglaður til að muna eftir hugmyndum um 5G senda Bill Gates og bólusetningar. Upp steig ég 24 tímum síðar sem nýr væri, þó ekki alla leið til himna.