Forystufólk atvinnurekenda hefur nú gefið það út að til álita komi að segja upp kjarasamningum. Bera þeir fyrir sig forsendubresti, sem þó er ekki fyrir hendi samkvæmt samningunum nema að samtök atvinnurekenda vilji gera að ágreiningi að afnám verðtryggingar gangi ekki nógu hratt fyrir sig. Almennar vísanir til stöðu fyrirtækja vegna Covid halda ekki vatni, enda er staða þeirra mjög mismunandi.

Erfitt er að draga upp mynd af raunverulegri stöðu ólíkra fyrirtækja og atvinnugreina þar sem áhrif Covid-19 eru ekki komin fyllilega fram í þeim gögnum sem styðjast þarf við. Hvort við verðum komin með fyllri mynd næstu mánuði er líka óvíst. Hins vegar er morgunljóst að sum fyrirtæki og sumar greinar hafa orðið einstaklega illa úti. Á sama tíma standa fyrirtæki á öðrum sviðum vel. Þess vegna þurfa viðbrögð stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar að beinast að þeim sviðum atvinnulífsins og samfélagsins þar sem aðstoðar er augljóslega þörf.

Launafrystingar og samdráttur þvert á línuna munu valda efnahagslífinu – og samfélaginu öllu – margfalt meiri skaða til framtíðar, ekki síst atvinnurekendum sem stóla á innlenda neyslu. Það eru engin gögn sem styðja þá fullyrðingu að launafrystingar dragi úr atvinnuleysi. Þvert á móti mun samdráttur í einkaneyslu lengja og dýpka kreppuna og auka á atvinnuleysi. Yfirlýsing um forsendubrest gerðra samninga og kröfur um niðurskurð og launalækkanir getur ein og sér orðið til þess að heimili og fyrirtæki ákveða að halda að sér höndum í útgjöldum sínum. Ef hagfræði atvinnurekenda segir að það sé gott fyrir efnahagslífið, þá er það einfaldlega vond hagfræði.

Stýritæki hins opinbera munu leika lykilhlutverk næstu misserin og það er nær að horfa til þeirra en að krefjast kjarafrystinga, eða jafnvel skerðinga á kjörum almennings. Þeir sem halda því fram að verðbólga sé óhjákvæmilegur fylgifiskur núverandi aðgerða í ríkisfjármálum þurfa að sýna fram á það með raungögnum, ekki eingöngu hugmyndafræðilegum fullyrðingum eða vísun til löngu liðinna tíma. Á heimsvísu er hreinlega bent á að verðhjöðnun sé líklegri til að verða til vandræða á komandi árum. Tengingar milli atvinnuleysis og verðbólgu hafa ekki verið fyrir hendi í góðan áratug og ekkert bendir til þess að Ísland skeri sig þar úr.

Af hálfu launafólks liggur fyrir að hvergi verður hvikað frá kröfu um að staðið verði við kjarasamninga, sem voru hóflegir samningar og miðuðu að því að styrkja stöðu þeirra verst settu á vinnumarkaði. Verði samningum einhliða slitið af hálfu atvinnurekenda mun það hafa í för með sér óróleika og jafnvel ófrið á vinnumarkaði. Launafólk mun verjast sérhverri tilraun atvinnurekenda til að koma fram grundvallarbreytingum á samfélaginu í skjóli COVID-faraldursins.

Á hinn bóginn eru samtök launafólks sannarlega tilbúin til samvinnu um aðgerðir til að mæta þeim vanda sem er til staðar í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Þar þarf að beita sértækum aðgerðum sem takast á við þann vanda sem raunverulega er fyrir hendi. Það er bæði réttlætismál og besta leiðin út úr kreppunni.

Höfundur er forseti ASÍ.