Fjölmiðlar gegna veigamiklu hlutverki við að upplýsa almenning um gang mikilvægra mála. Þeir upplýsa og fræða og veita jákvætt aðhald svo reglum og góðum siðum verði fylgt. Seðlabanki Íslands hefur leitast við að veita eins miklar upplýsingar um starfsemi sína og lög og aðstæður leyfa, hvort sem er á vef bankans, í ritum, skýrslum eða með öðrum hætti. Stundum meina lög hins vegar að upplýsingar séu veittar.

Að undanförnu hafa fjölmiðlar fjallað um málefni tveggja fyrrverandi starfsmanna Seðlabankans. Nú er það svo að stofnunum á borð við Seðlabankann er alla jafna ekki heimilt að veita upplýsingar um fjárhagsleg málefni viðskiptamanna eða starfsmanna. Það hefur ekkert með sjálfstæði bankans að gera, eins og leiðarahöfundur Fréttablaðsins virðist halda, heldur varðar þetta ákvæði um þagnarskyldu í lögum um bankann eða eftir atvikum ákvæði annarra laga um rétt til upplýsinga um persónuleg málefni fólks. Lög og reglur ákvarða þannig margt í starfi stofnana á borð við Seðlabanka Íslands eins og flest fjölmiðlafólk skilur, m.a. eftir fjölmarga úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Verði stofnunum á að veita of miklar upplýsingar geta þær átt hættu að brjóta lög og baka sér bótaskyldu. Það er því ekki af neinni leyndarhyggju, eins og sumir virðast halda, að stofnun eins og Seðlabankinn veitir ekki umbúðalaust allar umbeðnar upplýsingar, heldur er það vegna þess ramma sem lögin skapa.

Fjölmiðlar og stofnanir fylgja lögum

Fyrrverandi starfsmaður Seðlabankans hefur sjálf ákveðið að veita upplýsingar eftir að fjölmiðlar spurðu hana um persónuleg fjármál hennar. Í öðru máli felldi úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir talsverða yfirlegu þann úrskurð að Seðlabankanum bæri að veita upplýsingar um námsstyrk til handa fyrrverandi framkvæmdastjóra í bankanum. Seðlabankinn taldi þó að málefnaleg rök stæðu til þess að óska eftir við úrskurðarnefndina að fresta réttaráhrifum úrskurðarins og vísa honum til dómstóla. Í þessu máli er einungis verið að nýta ákvæði laga til að fá túlkun dómstóls á viðkomandi lagaákvæðum og fá þar með skýra og ótvíræða niðurstöðu í mál sem mismunandi skilningur er um. Með því að fallast á að fresta réttaráhrifum og að Seðlabankinn vísi málinu til dómstóla hefur úrskurðarnefndin í raun tekið undir það sjónarmið að réttmætt sé að fá dómstóla til að skera úr um túlkun á þeim lagaákvæðum sem hér eiga við. Sá blaðamaður sem óskað hefur upplýsinga hefur að mínu viti unnið verk sitt í þessum efnum vel og samviskusamlega og þótt formið krefjist þess að honum verði birt stefna, sem ýmsum kynni að finnast óþægilegt, þá er ekki verið að veitast að honum persónulega, og reynt er að milda honum leiðina eins og fram kemur í stefnunni og birtist m.a. í því að Seðlabankinn gerir ekki kröfu um greiðslu málskostnaðar þó svo hann myndi vinna málið.

Breyta lögum?

Seðlabankinn reynir að veita eins miklar og ríkulegar upplýsingar um starfsemi sína og gerlegt er. Í mörgum tilvikum er einfalt að veita upplýsingar en stundum getur slíkt kallað á mikla vinnu fjölda starfsmanna. Fjölmiðlafólk er vel upplýst um lagaumhverfið í þessum efnum, enda vísar það oft til lagaákvæða til rökstuðnings upplýsingabeiðnum sínum. Þetta fólk veit líka mætavel að lög geta meinað stofnunum að veita upplýsingar, t.d. um persónuleg eða viðskiptaleg málefni. Það er því ekki merki um neina mannvonsku eða kúgunartilburði, svo vitnað sé til orðalags ályktunar Blaðamannafélags Íslands, þótt fólk reyni að vanda sig og fara að lögum. Það vita flestir og skilja. Upplýsingalögum er ætlað að vera bæði blaðamönnum og stofnunum rammi og leiðbeining. Ef einhver er ósáttur við þau lög og þann farveg sem þau bjóða upp á eru hin réttu viðbrögð að ræða um mögulega breytingu á þeim.


Höfundur er ritstjóri í Seðlabanka Íslands