Brátt verður sólin hæst á lofti og dagur lengstur. Þó að veðurfar hafi ekki verið með besta móti á landinu undanfarið er landsmönnum fremur létt í sinni. Faraldurinn er að koðna niður samhliða fjölda bólusettra. Fagnað hefur verið af minna tilefni.

Þá tekur við það risavaxna verkefni að hefja uppbyggingarstarfið á ný. Þótt ágætlega hafi miðað í að draga úr atvinnuleysi og umfram það sem búist var við, ganga samt þúsundir um án atvinnu og heimili hafa mörg orðið fyrir fjárhagslegum skakkaföllum vegna minni tekna heimilishaldsins. Fjöldi fyrirtækja hefur verið lagður í dvala vegna tekjubrests og ekki víst að takist að vekja þau öll til lífsins á ný.

Hvergi er samt dauflegra um að litast en í fjármálum ríkisins. Mótvægisaðgerðirnar sem gripið var til hafa kostað ríkissjóð mikið og svo bætist við að tekjusamdráttur hins opinbera er umtalsverður. Samanlagður halli á ríkissjóði á síðasta og þessu ári verður nær 600 milljarðar króna.

Í þetta gat þarf að staga og það verður ekki gert að öllu leyti með lántökum þótt íslenska ríkið búi við tiltrú á fjármálamörkuðum heimsins.

Í vikunni urðu þau ánægjulegu atvik að hluti Íslandsbanka var seldur að hluta úr ríkiseigu.

Um 24 þúsund hluthafar bættust við þetta í eigendahóp bankans og þarf að leita langt aftur til að finna sambærilegan fjölda hluthafa í íslensku fyrirtæki. Margt bendir til að uppistaðan í þessum fjölda sé almenningur.

Að líkindum eru íslenskir lífeyrissjóðir meðal nýju hluthafanna, þar sem tugir þúsunda launþega eiga hagsmuni. Það verður því varla annað sagt en að salan hafi verið sigurför fjármálaráðherra og níföld umframeftirspurn glöggur vitnisburður um álit fjárfesta á rekstri bankans og framtíðarhorfum.

Við söluna aflar ríkissjóður sér dýrmætra 55 milljarða sem eiga munu sinn þátt í að greiða fyrir vandræðin sem faraldurinn hefur valdið. Og þetta var aðeins 35 prósenta eignarhlutur.

Strax eftir að niðurstaða sölunnar varð ljós og búið að tilkynna áskrifendum hvaða skerf þeir hefðu tryggt sér, hófust viðskipti með hlutina, þótt þeir verði ekki teknir til viðskipta á opinberum markaði fyrr en síðar í mánuðinum. Þessi fyrstu viðskipti benda eindregið til að heildarmarkaðsverð bankans verði talsvert umfram það sem lagt var til grundvallar við söluna nú. Íslenska ríkið mun því fá hærra verð fyrir hvert prósent þegar meira verður selt af bankanum. Þannig mun sala hans eiga sinn trausta þátt í að lækka skuldir ríkissjóðs og tryggja að við látum ekki komandi kynslóðum eftir að fást við þær.

En salan er líka sterk vísbending um að áfram þarf að halda við sölu ríkiseigna. Fjármálaráðherra segir í viðtali hér í blaðinu í vikunni að halda verði augum opnum fyrir frekari tækifærum til að losa um eignarhlut ríkisins að fullu. „Ef aðstæður á næsta ári leyfa er ekki eftir neinu að bíða.Til lengri tíma litið sé ég fyrir mér að ríkið skrái Landsbankann sömuleiðis á markað en verði áfram meirihlutaeigandi.“

Vonandi tekst að hrinda þessum áformum í framkvæmd. Því ráða kjósendur í haust.