Töluverðar áhyggjur eru uppi um að ófriður í verkalýðshreyfingunni muni lita komandi samningagerð á vinnumarkaði með neikvæðum hætti. Því fer þó fjarri að á hinni hlið samningaborðsins ríki eilífar ástir. Þannig hafa fréttir af ofurlaunum og ríkulegum bónusum lykilstarfsmanna stærstu fyrirtækja landsins ekki aðeins vakið reiði og hneykslun verkalýðsins í landinu heldur hafa eigendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja líka fussað. Þeir vita að spjótum verður beint að þeim í komandi kjaraviðræðum.

Í grein í Viðskiptablaðinu í síðustu viku lýsir framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda þessum ótta og líkindum til þess að afleiðingar ofurlauna bitni harðast á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Í greininni skorar Ólafur Stephensen á stjórnir stórfyrirtækja að lækka ofurlaun og bónusa áður en sest verður að samningaborðum. Nú þegar komið er að birtingu álagningarskrár skattstjóra má búast við að launakjör helstu stétta og áhrifafólks í samfélaginu verði fréttaefni næstu daga. Samninganefndir þeirra stétta sem eiga lausa samninga fá því úr nægu að moða í heimavinnunni.

Gera þarf upp útspil ríkisstjórnarinnar vegna Lífskjarasamninganna, hvað hefur verið efnt og hversu vel var að því staðið. Fljótt á litið virðast málin sem setið hafa á hakanum einkum lúta að hagsmunum þess fólks á vinnumarkaði sem lakast stendur. Endurskoðun húsaleigulaga er enn á byrjunarreit og viðurlög gegn launaþjófnaði og annarri brotastarfsemi gegn launafólki hafa enn ekki verið fest í lög. Þótt fjármálaráðherra hafi lýst litlum áhuga á aðkomu að samningagerðinni hlýtur sitjandi ríkisstjórn, sem skipuð er sömu flokkum og stjórnin sem liðkaði til fyrir Lífskjarasamningunum, að vera reiðubúin að horfast í augu við efndir þeirra loforða sem þegar hafa verið gefin.

Ýmsar nýjungar sem kynntar hafa verið á vinnumarkaði þurfa einnig endurskoðun. Efst þar á lista er stytting vinnuvikunnar, sem kemur helst vel út hjá opinberum starfsmönnum í þægilegri innivinnu.

Að lokum hafa daggæslumálin komið inn í upphitunartímabil kjaraviðræðna með krafti með sviknum loforðum sveitarfélaga.

Því fer fjarri að verkalýðshreyfingin ein sé í vandræðum heima fyrir í aðdraganda kjaraviðræðna og ljóst að allir sem vettlingi geta valdið til að koma á góðum samningum í haust þurfa að taka sig saman í andlitinu.