Þessa dagana fer fram Sálfræðiþing þar sem sálfræðingar hittast og bera saman bækur sínar, nýjustu rannsóknir eru kynntar og fjallað er um þróun sálfræðiþjónustu. Ein mikilvægasta þróun sálfræðiþjónustu í landinu fer fram þessi misserin á heilsugæslustöðvum landsins.

Þriðjungur þeirra sem leita á heilsugæslu leitar þangað vegna tilfinningavanda svo sem vegna einkenna þunglyndis, kvíða og áfallastreituröskunar. Samkvæmt klínískum leiðbeiningum er mælt með því að meðhöndla fólk sem leitar til heilsugæslunnar með væg til miðlungs einkenni þunglyndis, kvíðaraskanir og áfallastreituröskun með gagnreyndum sálfræðimeðferðum.

Það var mikið fagnaðarefni þegar það framfaraskref var stigið að ráða fyrstu sálfræðingana inn í heilsugæsluna til þess að veita þessa mikilvægu þjónustu og geta boðið hana í stað og/eða samhliða lyfjameðferð sem mikið aðgengi er að. Frá upphafi hefur almenningur haft mjög takmarkað aðgengi að gagnreyndum meðferðum sálfræðinga hér á landi og löngu tímabært að byggja upp aðgengi að þessari mikilvægu þjónustu. Vegferðin er hafin en enn vantar mikið upp á til að þjónustan sé tryggð og aðgengileg fyrir almenning. Mikilvægt er að tryggja þjónustuna sem allra fyrst í samræmi við það sem gert hefur verið í nágrannalöndunum, svo sem í Bretlandi, Noregi, Svíþjóð og víðar með góðum árangri undanfarin tæp tuttugu ár.

Uppbygging byggð á rannsóknum

Fyrsti sálfræðingurinn sem sinnti fullorðnum í heilsugæslu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var ráðinn inn 2017 og fljótlega stækkaði hópurinn og óx undir styrkri forystu dr. Agnesar Agnarsdóttur sérfræðings í klínískri sálfræði sem skrifaði doktorsverkefni sitt um þörf fyrir sálfræðiþjónustu í heilsugæslu á Íslandi árið 1997. Rannsókn undirritaðrar um algengi tilfinningavanda í heilsugæslu á Íslandi frá 2011 sýndi fram á svipaðar niðurstöður og áður höfðu birst í rannsókn Agnesar um að þriðjungur þeirra sem leitar aðstoðar í heilsugæslu er þar vegna tilfinningavanda. Í doktorsverkefni dr. Hafrúnar Kristjánsdóttur sem ber heitið Að bæta aðgengi að sálfræðimeðferð í heilsugæslu með ósérhæfðri hugrænni atferlismeðferð í hóp er sýnt fram á að hinn íslenski ÓHAMH-meðferðavísir er árangursríkur og hentar fólki með þunglyndis- og kvíðaraskanir og hann gæti því reynst gagnlegur ef auka á aðgengi sjúklinga í heilsugæslu að gagnreyndri sálfræðimeðferð. Mikilvægt er að ráðast í áframhaldandi rannsóknir á þessu sviði hér á landi.

Sálfræðingar stýri uppbyggingu sálfræðiþjónustu í heilsugæslu

Uppbygging sálfræðiþjónustu í heilsugæslu undanfarin 6 ár hefur reynst talsverð áskorun af mörgum ástæðum. Það er áskorun fyrir nýja heilbrigðisstétt að koma inn í heilbrigðisþjónustu sem fest hefur verið í sessi um áraraðir undir stjórn annarra fagstétta. Til þess að sálfræðiþjónusta í heilsugæslu virki sem skyldi þurfa nokkur lykilatriði að vera til staðar. Fyrst og fremst þurfa sálfræðingar sjálfir að leiða uppbygginguna, sinna fagstjórn og vera hluti af stjórnendateymum heilsugæslunnar. Mönnunin þarf að vera nægjanleg til að hægt sé að bjóða þjónustu innan 6 vikna og flæði sé í þjónustunni. Í fyrirmyndarverkefni sem byggt hefur verið upp í Bretlandi frá 2006 um aukið aðgengi almennings að sálfræðimeðferðum er miðað við einn sálfræðing á hverja 6.250 íbúa í þjónustu við fullorðna og annan í þjónustu við börn. Undanfarið hafa verið tæp 16 stöðugildi sálfræðinga í fullorðinsþjónustu á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en þyrftu að vera að minnsta kosti 30 auk mun meiri stoðþjónustu og fagstjórnenda. Taka þarf tillit til þess að þjónustuþörfin er uppsöfnuð, byggja þarf upp skilvirkni og afleiðingar heimsfaraldurs auka þungann. Þeir sálfræðingar sem starfa á heilbrigðisstofnun þurfa að hafa greitt aðgengi að þjálfun, handleiðslu og fræðslu til að tryggja gæði þjónustunnar. Sömuleiðis þarf að tryggja samræmingu á milli stöðva og hafa virk mælaborð til að mæla flæði og árangur.

Því miður hefur verið tekist á um ýmis grundvallaratriði varðandi uppbygginguna, staða fagstjóra sálfræðiþjónustu var lögð niður, skort hefur á mannafla og stoðþjónustu sem hefur komið niður á þjónustunni og hægt á uppbyggingu hennar.

Við sem störfum í heilsugæslunni og er annt um þessa uppbyggingu hvetjum almenning og heilbrigðisyfirvöld til þess að tryggja þessa mikilvægu uppbyggingu með okkur enda þörfin rík og arðsemin óumdeild.