Opið bréf til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá formanni FH birtist þann 7. september sl. Í bréfinu gagnrýnir formaðurinn harðlega fyrirætlanir bæjarins um uppbyggingu á Ásvöllum. Þegar horft er til þess að sveitarfélagið hefur sett verulegt fjármagn úr bæjarsjóði í uppbyggingu í Kaplakrika á síðustu árum er það mjög sérstakt að formaður FH gagnrýni aðkomu bæjarins að uppbyggingu hjá Haukum.

Svo er það áhugavert að fyrrverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar, sem nú er oddviti Samfylkingarinnar og reyndar fyrrverandi formaður knattspyrnudeildar FH, sé hugsi yfir fyrirhugaðri uppbyggingu á Ásvöllum en árið 1989, í bæjarstjórnartíð oddvitans, gaf Hafnarfjarðarbær FH íþróttahúsið í Kaplakrika, bærinn keypti húsið aftur á síðasta kjörtímabili þegar gengið var frá eignarskiptasamningi við félagið.

Fjármagn til íþróttamála

Varðandi ummæli formanns FH að ekkert fjármagn verði sett í önnur íþróttafélög vegna uppbyggingar á Ásvöllum þá horfir formaðurinn fram hjá því að samhliða því að milljarðar hafi verið settir í framkvæmdir á Kaplakrika á síðustu tveimur áratugum hefur uppbygging á öðrum íþróttasvæðum gengið vel ásamt því að bærinn hefur aukið verulega fjármagn til reksturs íþróttafélaga á síðustu árum, á sama tíma hefur verið jafnt og þétt aukið í íþróttastyrki til barna og unglinga.

Sameiginlegir hagsmunir

Þegar horft er til þess að búið er að veita umtalsverðu fjármagni í Kaplakrika, nú síðast fyrir um tveimur mánuðum þegar samþykkt var að setja 250 milljónir í hybrid gras í Kaplakrika, ættu forsvarsmenn FH að gleðjast þegar verið er að auka fjármagn í uppbyggingu á íþróttamannvirkjum. Uppbygging sunnan Reykjanesbrautar hefur verið mikil og er enn í gangi, áætlað er að á því svæði verði um 15.000 íbúar, mestmegnis ungt fólk með börn og unglinga sem stunda íþróttir.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar horfir til allra hverfa í bænum þegar kemur að uppbyggingu íþróttamannvirkja. Í stað þess að gagnrýna ákvarðanir um uppbyggingu á öðrum stöðum en í Kaplakrika væri skynsamlegt að forsvarsmenn FH tækju fagnandi hverri krónu sem varið er úr bæjarsjóði til uppbyggingar á íþróttamannvirkjum í bænum. Góð og samkeppnisbær aðstaða til íþróttaiðkunar samanborið við önnur sveitarfélög ætti að vera sameiginlegt hagsmunamál íþróttahreyfingarinnar í Hafnarfirði.