UNICEF, Barna­hjálp Sam­einuðu þjóðanna, á 75 ára af­mæli í ár. UNICEF var stofnað eftir seinni heims­styrj­öldina til að bregðast við á­hrifum stríðsins á líf barna í Evrópu og sinnir í dag hjálpar­starfi fyrir börn í yfir 190 löndum og land­svæðum, þar sem unnið er að því að bæta líf barna og tryggja réttindi þeirra.

UNICEF er mál­svari barna á heims­vísu og sinnir bæði lang­tíma­upp­byggingu og neyðar­að­stoð, með það að mark­miði að mæta þörfum allra barna, alls staðar. Brugðist er við náttúru­ham­förum og vopnuðum á­tökum, börnum og fjöl­skyldum á flótta veitt öruggt skjól, hreint vatn og næring. UNICEF kemur að bólu­setningum hátt í helmings allra barna í heiminum gegn lífs­hættu­legum sjúk­dómum og hefur haft veru­leg á­hrif á að tryggja að­gengi stúlkna að menntun, á svæðum þar sem það þykir ekki sjálf­sagt að stúlkur gangi mennta­veginn, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Á hverjum degi sjáum við árangur – árangur sem hefur bein á­hrif á líf barna um allan heim. Þetta er okkar helsti drif­kraftur. Bar­átta UNICEF á þátt í að stór­lega hefur dregið úr barna­dauða á heims­vísu, meðal annars með bólu­setningum, bættri heilsu­gæslu og með­ferð við van­næringu. Marg­falt fjöl­mennari hópur barna fær með­ferð við HIV en áður og fleiri hafa að­gang að hreinu vatni nú en nokkru sinni fyrr. Aftur á móti stendur heimurinn, og um leið UNICEF, frammi fyrir sinni verstu heimskreppu í 75 ár: Skelfi­legum á­hrifum heims­far­aldurs á líf og réttindi barna. Hætta er á að árangur síðustu ára­tuga sé í hættu, ekki síst hvað varðar fá­tækt, heilsu, næringu, að­gengi að menntun, barna­vernd og geð­heil­brigðis­mál.

Mynd/UNICEF

Aldrei hefur þörfin fyrir verk­efni UNICEF og sam­starfs­aðila verið jafn mikil. Í nýrri skýrslu UNICEF kemur fram að Co­vid-19 far­aldurinn hefur valdið því að fjöl­mörg börn svelta, hafa misst úr skóla og hafa ekki lengur að­gang að heil­brigðis­þjónustu. Í stað fram­fara hefur staða barna versnað til muna.

Um 100 milljónir barna hafa vegna far­sóttarinnar bæst í hóp þeirra sem búa við fá­tækt. Þetta þýðir að á hverri sekúndu frá því um miðjan mars 2020 hafa hátt í tvö börn bæst í hóp þeirra sem eiga vart í sig og á. Far­sóttin hefur einnig valdið því að það hefur reynst þrautin þyngri að sinna al­mennum bólu­setningum. Það hefur skelfi­legar af­leiðingar fyrir stóra hópa barna sem ekki bara glíma við af­leiðingar heims­far­aldurs heldur eiga einnig á hættu að veikjast al­var­lega eða deyja af völdum sjúk­dóma sem auð­veld­lega er hægt að koma í veg fyrir með bólu­setningum.

UNICEF stendur fyrir varan­legum um­bótum sem breyta heiminum þegar til lengri tíma er litið. Al­menningur á Ís­landi, ekki síst í gegnum Heims­for­eldra, sam­starfs­fyrir­tæki og stjórn­völd, hefur tekið þátt í þessari bar­áttu með UNICEF á Ís­landi. Við kunnum ykkur öllum miklar þakkir fyrir. Við eigum mikið verk fyrir höndum en saman getum við og verðum við að byggja upp heim þar sem réttindi allra barna eru virt.