Í aðdraganda Örlygsstaðabardaga árið 1238 lagðist Sturla frændi minn Sighvatsson á bæn. Hinum megin víglínunnar hvatti Gissur Þorvaldsson sína menn til dáða. Ræðunni lauk hann með orðunum: Gæti vor allra Guð. Bæði Sturla og Gissur lærðu ungir að leita til almættisins um hjálp.

Síðustu vikur hafa menn deilt um kristnifræðikennslu. Álitsgjafar hafa farið hamförum á netinu og sagt að nær væri að kenna börnum trúarbragðasögu eða siðfræði. Kristnidómnum væri ofaukið í skólum landsins!

Þetta er tímanna tákn. Vísindamenn greina virkni eldfjalla í iðrum jarðar. Spekingar með spálíkan og tölvuskjá segja fyrir um gang drepsótta og eldfjallavirkni. Öll óvissa er eitur í beinum nútímamanna. Þegar lífið verður fyrirsjáanlegt er engin þörf fyrir Guð.

Móðir mín kenndi mér faðirvorið og nokkrar bænir sem hafa reynst mér vel í lífsins ólgusjó. Í barnamessum Laugarneskirkju lærði ég sálma sem ég hef oft raulað mér til hugarhægðar. Þegar ég fór í aðgerð á dögunum þuldi ég vers eftir séra Hallgrím á leið inn á skurðstofuna. Mér fannst það reynast mun betur en lyfjasull svæfingalæknisins. Ég lærði því lungann úr minni kristnifræði við móðurkné, en ekki í Laugarnesskólanum.

Lífið er þó ekki alltaf fyrirsjáanlegt eins og við Sturla frændi höfum margsinnis fengið að sannreyna. Þegar fokið er í flest skjól finnst mér vænlegast að biðja til Guðs. Hinir geta á ögurstundum lífsins rifjað upp trúarbragðasögu eða siðfræði og beint augum sínum til tölvunnar í von um hjálp. Hallgrímur heitinn Pétursson vitjaði mín reyndar í draumi og fór með þessar hendingar úr Passíusálmunum:

„Svo er án bænar sálin snauð,

sjónlaus, köld, dauf og rétt steindauð.“