Sagan er ekki til að hampa eigin sönghæfileikum. Þvert á móti hefur mér ætíð verið meinuð innganga í kór. Það féll í minn hlut að vera eina barnið sem komst ekki í grunnskólakórinn og þegar ég sótti söngtíma með vinkonu minni vorum við leystar út með umsögninni að við værum laglausar og án tóneyra.

Lækningamáttur tónlistar

Þrátt fyrir að hafa mætt múrveggjum á hinum músíkalska vegi þá hefur engum tekist að taka burt tilfinninguna sem kviknar þegar tónar hljóðfæra eða söngva óma. Helgi Björns og Bee Gees hafa einhvern dulúðlegan hæfileika til að láta axlirnar rugga og raddböndin raula. Tónlistin verður tilveran og tilveran verður tónlistin. Og ef taktur tónanna breytist, þá breytist taktur axlanna. Tilfinningar vakna, allt frá uppörvun til slökunar, gleði til depurðar og ótta til vellíðunar.

En hvernig stendur á því að tónlist hefur svo víðtæk áhrif á okkur að spanna nær allan tilfinningaskalann?

Vísindamenn hafa rannsakað áhrif tónlistar á líf okkar og það er ekki að ástæðulausu að tónlist er rannsökuð með tilliti til lækningamáttar. Talið er að tónlist virki í gegnum nokkrar boðleiðir í taugakerfinu. Að hún auki dópamín og ópíöð í ánægju- og umbunarsvæði heilans, minnki kortisól með því að dempa streitukerfið, örvi mótefni ónæmiskerfisins og bæti félagsleg tengsl okkar gegnum hormónið oxýtósín. Vögguvísur geta huggað veika nýbura á gjörgæslu, bætt svefn þeirra og getu til að nærast, ásamt því að minnka streitu hjá foreldrum þeirra. Þá hefur verið sýnt fram á að tónlist geti minnkað þörf fyrir verkjalyf eftir skurðaðgerð. Og með því að gefa naloxón, sem er mótefni gegn ópíóðum, var hægt að koma í veg fyrir viss jákvæð áhrif tónlistar, sem bendir til þess að tónlist hafi efnafræðilega áhrif á heilann. En áhrif tónlistar eru ekki alltaf góð.

Þegar tónlist trekkir

Við vissa tegund af tónlist trekkist taugakerfið. Teknótónlist virðist geta aukið kortisól og noradrenalín – streituhormónin okkar – og gert fólk áhættusæknara. Því er líklega ekki að ástæðulausu að við bregðumst mismunandi við tóntegund. Segðu sömu setninguna með mismunandi hljómblæ, til dæmis „geturðu þurrkað af borðinu“, og tilfinningin sem fylgir fer eftir því hvort röddin er ljúf eða hvöss. Persónuleiki virðist líka tengjast viðbrögðum okkar við tónlist. Til dæmis virðast úthverfir þola betur bakgrunnstónlist en innhverfir, sem skýrir kannski af hverju sumir þola betur að vera í hávaða en aðrir.

Í samantekt á 104 rannsóknum með hátt í tíu þúsund þátttakendum gat tónlist minnkað streitu, bæði í líkama og sál. Það góða við tónlist er að það þarf ekki að bíða eftir virkni, hún hefur strax áhrif. Og við höfum aðgang að ótal færu tónlistarfólki sem er lagvisst með gott tóneyra, ólíkt mér. Hvernig drengirnir sofnuðu er enn hulin ráðgáta, en ef ég ætti að giska þá tel ég að þeir hafi verið undir áhrifum tóna fyrri tíma.