Ávallt þarf að gæta þess að umræða um fjármál sveitarfélaganna byggi á hlutlægum og málefnalegum grunni og að ekki sé vegið að þeim rétti sveitarfélaga á Íslandi til sjálfstjórnar sem þeim er tryggður samkvæmt íslensku stjórnarskránni, þar með töldum heimildum þeirra samkvæmt lögum til mishárrar álagningar skatta.

Við umfjöllun um fjármál sveitarfélaga á Íslandi koma málefni Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga jafnan til tals. Af og til, sérstaklega á tímum sem sveitarfélögin eiga erfitt með að ná endum saman, er það sjónarmið reifað að ef sveitarfélag nýtir ekki útsvarshlutfall sitt að fullu, eigi að skerða framlög þess úr jöfnunarsjóðnum sem nemur vannýttum útsvarstekjum.

Ávallt þarf að gæta þess að umræða um fjármál sveitarfélaganna byggi á hlutlægum og málefnalegum grunni og að ekki sé vegið að þeim rétti sveitarfélaga á Íslandi til sjálfstjórnar sem þeim er tryggður samkvæmt íslensku stjórnarskránni, þar með töldum heimildum þeirra samkvæmt lögum til mishárrar álagningar skatta.

Fjármögnun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er rekinn í þremur sjálfstæðum einingum. Almenni hlutinn er fjármagnaður af ríkissjóði en grunnskólahlutinn og sá hluti sjóðsins sem snýr að málefnum fatlaðs fólks, er fjármagnaður af sveitarfélögunum með hluta af lögbundnum útsvarstekjum þeirra.

Í Árbók sveitarfélaga er að finna nákvæmar upplýsingar um hlutdeild Jöfnunarsjóðs í útsvarstekjum sveitarfélaganna. Stundum er því reyndar haldið fram að þetta sé í raun ekki framlag sveitarfélaganna því þetta fé hafi enga viðkomu í sveitarsjóðunum á leið sinni í Jöfnunarsjóðinn. Það sjónarmið er hins vegar á skjön við ákvæði laga um tekjustofna sveitarfélaga og reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þar segir að auk ríkisins fjármagni sveitarfélögin Jöfnunarsjóðinn með hlutdeild í útsvarstekjum sínum.

Mikilvægt er að fram komi að árlegt fjárframlag sveitarfélaga til Jöfnunarsjóðs er algerlega óháð því álagningarhlutfalli útsvars sem sveitarfélögin leggja á. Árlegt framlag hvers sveitarfélags miðast eingöngu við álagningarstofn útsvars í viðkomandi sveitarfélagi ár hvert og er fastsett 1,76% af þeim stofni, þar af 0,77% vegna reksturs grunnskólanna og 0,99% vegna málefna fatlaðs fólks.

Lögbundnir tekjustofnar sveitarfélaga eru útsvar, fasteignaskattur og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Með því að tilgreina hámark og lágmark heimildar til álagningar útsvars er í lögum um tekjustofna sveitarfélaga beinlínis gert ráð fyrir mismunandi skattaálögum milli sveitarfélaga. Það er því á allan hátt óeðlilegt að skerða hlutdeild sveitarfélags í einum tilteknum lögbundnum tekjustofni, sé einhver annar þeirra ekki fullnýttur. Samkvæmt Árbók sveitarfélaga 2021 lögðu 17 sveitarfélög ekki á 14,52% hámarksútsvar og einungis sjö þeirra fullnýttu heimild (0,625%) til álagningar fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði 2021. Það er býsna stór hluti sveitarfélaga á Íslandi sem fullnýtir ekki tekjustofna sína.

Drjúgt framlag Garðabæjar til fjármögnunar Jöfnunarsjóðs

Af 20 stærstu sveitarfélögum landsins lagði Seltjarnarnesbær mest af útsvarstekjum sínum til fjármögnunar Jöfnunarsjóðs á íbúa á hverju einasta ári á árunum 2016-2020 (2021 er enn óbirt). Næsthæsta fjárhæð á hvern íbúa á þessu tímabili lagði Garðabær til fjármögnunar sjóðsins.

Nettó hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í lögbundnum útsvars­tekjum Garðabæjar, það er umfram þegin jöfnunarframlög Garðabæjar úr sjóðnum, nam 718 milljónum króna á árinu 2021, verður um 850 milljónir króna á árinu 2022 og á tímabilinu 2013-2022 nam hlutdeild Jöfnunarsjóðsins í útsvarstekjum Garðabæjar umfram þegin framlög Garðabæjar úr sjóðnum, 4,3 milljörðum króna, að undanskildu sérstöku framlagi vegna sameiningar Garðabæjar og Álftaness.

Þetta drjúga nettó framlag Garðabæjar fer til fjármögnunar þess hluta Jöfnunarsjóðs sem snýr að rekstri grunnskóla og málefnum fatlaðs fólks. Það byggir á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga vegna yfirtöku sveitarfélaganna á öllum rekstri grunnskólanna 1996 og yfirtöku sveitarfélaganna á málefnum fatlaðs fólks 2011.

Úr hinum almenna hluta Jöfnunarsjóðs eru veitt tekjujöfnunarframlög og útgjaldajöfnunarframlög. Á þeim undanförnu 25 árum sem birt talnaefni Jöfnunarsjóðsins nær til, hefur Garðabær aldrei fengið tekjujöfnunarframlag úr sjóðnum, enda fær sveitarfélag sem ekki nýtir útsvarshlutfall sitt að fullu ekki slíkt framlag. Komið hefur til umræðu að skerða einnig útgjaldajöfnunarframlög til sveitarfélaga sem ekki nýta útsvarshlutfall sitt að fullu, þar sem ríkið fjármagnar þessa tilteknu einingu sjóðsins.

Þegar horft er til Jöfnunarsjóðs í heild sinni væri skerðing annarra jöfnunarframlaga en tekjujöfnunarframlags óásættanleg fyrir sveitarfélag eins og Garðabæ, sem, þrátt fyrir að nýta sér ekki heimild til að leggja hámarksálögur á íbúa sína, leggur hlutfallslega meira til Jöfnunarsjóðsins af sínum lögbundnu útsvarstekjum en öll önnur sveitarfélög landsins, að Seltjarnarnesbæ undanskildum.

Mun skilvirkara fyrir sveitarstjórnarstigið í landinu er að halda áfram að hagræða í rekstri með sameiningu sveitarfélaga og vinna þannig að því að minnka fjárútlát Jöfnunarsjóðs, öllum sveitarfélögum til hagsbóta.

Stöðugleiki í fjármálum sveitarfélaganna

Opinber umræða um málefni sveitar­félaga er mikilvæg. Við umfjöllun um tekjustofna sveitarfélaganna er afar brýnt að hafður sé í huga stöðugleiki í fjármálum þeirra og að fjallað sé um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á ábyrgan hátt.

Í stað þess að eyða orku í innbyrðis deilur um þann lögbundna tekjustofn sveitarfélaganna sem framlög úr Jöfnunarsjóði eru, ættu kjörnir fulltrúar sveitarfélaganna og forystufólk Sambands íslenskra sveitarfélaga að leggjast á eitt um að styrkja fjárhagslegan grunn allra sveitarfélaga landsins með því að leiða til lykta viðræður við ríkið um leiðrétt framlag vegna málefna fatlaðs fólks. Þar hallar á sveitarfélögin um marga milljarða króna árlega, eins og sýnt hefur verið fram á af hálfu sambandsins.

Við þurfum stöðugt að minna okkur á að lægri skattaálögur á íbúa en hámarksheimildir kveða á um, eru ekki vannýttir tekjustofnar og að „útsvarstekjur sem sveitarfélag getur aflað en eru felldar niður“ eru eign íbúanna og hækka ráðstöfunartekjur heimilanna.