Sú var tíðin að pota átti stóriðju ofan í hverja vík á Íslandi, en þar væri líka komið hið endanlega svar við atvinnuuppbyggingu landsmanna. Heillaráðið var að afhenda erlendum auðhringum íslenska orku á slíkum kostakjörum að þeir sæju sér ekki annað fært en að reisa risastórar verksmiðjur um eyjuna þvera og endilanga.

Þessi dæmalausa gestrisni, að beisla náttúruna upp um allar heiðar í þágu útlenskra stórfyrirtækja, og hlífa þeim jafnframt við skattgreiðslum á þessum endimörkum álfunnar, þótti löngum vera til um marks hvað ráðamenn voru úrræðagóðir í atvinnumálum, þriðja meginstoðin – iðnaðurinn – var komin til að vera í íslenskum efnahag og yki fjölbreytnina á vinnumarkaði til muna.

Sama gestrisnin blasir nú við í stórauknu sjókvíaeldi á vestan- og austanverðu landinu. Erlendum fjárfestum er gefinn opinn aðgangur að misjafnlega þröngum fjörðum sem allsendis óvíst er hvort beri það eldi sem þar fer fram í kvíum undan landi.

Og enn skal gróðavonin njóta vafans. Náttúran verður bara að þola sitt á meðan atinu vindur fram – og það sakar auðvitað ekki í þeim efnum að ósóminn sem af því hlýst er allur geymdur undir yfirborði sjávar.

Hann er raunar gríðarlegur. Allar tölur þar að lútandi liggja fyrir. Engu að síður fæst hvert leyfið af öðru til að fylla fjörð og annan af ógnarstórum kvíum sem þekja stóra hluta hafsvæðisins.

Norska umhverfisstofnunin hefur metið mengunina af hverju tonni í sjókví á við skólp frá sextán manneskjum. Í því mengi má nefna að fyrirtækið Laxar á Austfjörðum er með leyfi fyrir sextán þúsund tonnum í Reyðarfirði. Starfsemin þar framleiðir því skólp á við 256 þúsund manns. Það er auðvitað ekkert annað en argasti sóðaskapur.

Á vef íslensku Umhverfisstofnunarinnar er sjókvíaeldi flokkað sem mengandi iðnaður. Það er að vonum. Enda fer allt skólpið sem fellur til við framleiðsluna beint í sjóinn.

Sjókvíaeldi er í raun og sann stríðsyfirlýsing á hendur náttúrunni. Svo og dýraríkinu, en erfðablöndun við villtan lax er stórfellt áhyggjuefni. Svo er komið að einn af hverjum tuttugu löxum í ám kemur úr eldi. Það er ofboðsleg tala.

En þetta er svo íslenskt. Landeldi er á allan máta langtum umhverfisvænna en sjókvíaeldi, en stofnkostnaður er þar miklu meiri. Þess vegna leyfist mönnum að stytta sér leið að gróðanum. Einmitt á Íslandi.