Ef þú ætlar að eyðileggja góðan mann þá seturðu hann í valdastöðu og gerir honum ókleift að vinna eftir sannfæringu sinni. Þannig fór með sitjandi umhverfis og auðlindaráðherra vorn Guðmund Inga Guðbrandsson. Til hans hefur ekkert spurst síðan úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis – og auðlindarmála féll þann 19. júlí vegna Hvalárvirkjunnar. Reyndar hefur ekkert til hans spurst síðan í byrjun júlí, engin dagbókarfærsla á vef ráðuneytis hans eða á Facebooksíðu ráðuneytisins. Ekki eitt orð og ládauður sjór.

Allar manneskjur standa frammi fyrir því vali að fylgja sannfæringu sinni eða að láta undan og lúta stjórn utanaðkomandi afla þótt það stríði gegn betri vitund. Í þessari gömlu stöðu Antígónu lenti vesalings umhverfis- og auðlindaráðherra vegna Hvalárvirkjunar. Ég votta honum og fjölskyldu hans samúð mína.

Guðmundur valdi því miður þá leið sem virðist auðveldust við fyrstu sýn og vonaði að enginn sæji hann hörfa undan ábyrgð og eigin sannfæringu. Ekki verður Guðmundi að ósk sinni og sárin og eyðileggingin í Árneshreppi munu um eilífð bera skömm hans vitni.

Guðmundur gegndi áður stöðu framkvæmdastjóra Landverndar og barðist ötullega fyrir verndun víðerna og varaði meðal annars við fyrirhuguðum virkjunaráformum vegna Hvalárvirkjunar. Hann benti þá á Kárahnjúkavirkjun sem víti til varnaðar og sagði meðal annars þetta um málið:

„Eitt hef­ur ekki breyst og það er að enn eru þau rök sett fram hvað varðar Hvalár­virkj­un að fáir komi á svæðið og því sé betra að virkja það,“ seg­ir hann. „Ferðamennska hef­ur enn sem komið er ekki verið mik­il á þess­um hluta lands­ins en það ger­ir svæðið ekk­ert minna verðmætt. Það eru þarna stór víðerni. Með Kára­hnjúka­virkj­un voru stór víðerni klof­in í herðar niður. Það er nokkuð sem við ætt­um að var­ast að gera aft­ur.“

„Ef fólk á þessu svæði hef­ur raun­veru­leg­an vilja til að byggja upp sam­fé­lagið og laða að sér ungt fólk, eins og ég veit svo sann­ar­lega að það hef­ur, þá er þessi virkj­un ekki svarið,“ seg­ir Guðmund­ur Ingi hjá Land­vernd. „Hrepps­bú­ar vilja tvennt; fleira fólk og bætt­ar sam­göng­ur árið um kring. En það fær hvor­ugt með Hvalár­virkj­un.“

„Eins og mál­in líta út núna þá mun Hvalár­virkj­un og teng­ing­ar henn­ar við flutn­ingsnetið engu máli skipta hvað varðar raf­orku­ör­yggi á Vest­fjörðum nema ráðist verði í hring­teng­ingu raf­magns sem kæm­ist senni­lega aldrei á fyrr en að 15-20 árum liðnum ef vel gengi.“

Það er skiljanlegt að Guðmundur Ingi hafi látið sig hverfa núna við úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála. Það þarf hugrekki til að fylgja sannfæringu sinni þegar á móti blæs, ávöxtur þess er meðal annars að geta horfst í augu við spegilmyndina að morgni dags. Spyrja má hvaða öfl það séu sem hafa kviksett núverandi umhverfisráðherra. Katrín Jakobsdóttir? Bjarni Benediktsson? HS Orka eða eigendur HS Orku? Hver?

Það er lymskufullt eðli þeirra sem vilja ná sínu fram, hvað sem það kostar, að vana þá sem hreyfa mótbárum við áformum þeirra. Það gera þeir með því að laða til sín gott hugsjónafólk og setja það í það sem virðast vera ábyrgðar- og áhrifastöður en læsa þá inni um leið og þeim eru falin lyklavöldin.

Það er illa komið fyrir þeirri þjóð sem telur sig búa í lýræðisríki að skynja það að gráðugir peningamenn stýri hér öllum pólitískum ákvörðunum. Sé það rétt ákyktað, er bylting eina svarið.

Að endingu vil ég árétta samúð mína og nú til handa kjósendum Vinstri grænna því það hefur án efa verið erfitt fyrir tiltrúendur hans að horfa upp á „@UmhverfisMumma” plataðan í sessulausan valdastól þar sem hann má dúsa tannlaus og mállaus með vistvænan plastpoka í annarri hendi og rafmagnsbílainnstungu í hinni.

Ég hvet umhverfisráðherra til þess að viðurkenna valdaleysi sitt og segja frá því hver það er sem bindur hendur hans ef sú er raunin. Almenningur á rétt á þeim upplýsingum þó hin sanna valdaelíta geri allt til að fela spor sín.

Ef engin svör fást þá ætti almenningur að gráta góðan mann.