Síðustu misserin hefur reglulega komið upp hávær umræða um umgengnismál. Gagnrýnin kemur frá mæðrum, feðrum og öðrum sérfræðingum. Þessi umræða hefur vakið athygli mína þar sem ég hef frá 2014 starfað sem lögmaður fyrir fjölda foreldra í umgengnismálum fyrir norskum dómstólum. Hér verð ég ekki vör við sambærilega umræðu og almennt leysast slík mál með samkomulagi þar sem þokkalegri sátt er náð með aðstoð dómstóla.

Ég hef því skoðað nánar barnalögin á Íslandi og í Noregi, varðandi umgengnismál.

Ísland er eina Norðurlandið þar sem framkvæmdarvaldið fer með úrskurðarvald í ágreiningsmálum milli foreldra um umgengni við börn skv. 46 gr. barnalaga 46/2003. Á hinum Norðurlöndunum eru það einungis dómstólar sem hafa úrskurðarvald í umgengnismálum.

Það er vandséð hvaða efnislegu rök eru fyrir því að sýslumönnum sé falið úrskurðarvald í ágreiningsmálum um umgengni og væntanlega fá önnur dæmi um að löggjafinn feli framkvæmdarvaldinu að dæma í ágreiningsmálum milli einstaklinga. Væntanlega hefur þetta fyrirkomulag fremur sögulegar skýringar en lögfræðilegar. Vægi og mikilvægi lögvarinna réttinda barna hefurt aukist mikið á síðustu áratugum t.d. með lögfestingu og auknu vægi barnasáttmála SÞ 2013.

Það er mikill grundvallarmunur á málsmeðferðarreglum stórnsýslulaga og laga um meðferð einkamála fyrir dómstólum, enda eru verkefni stjórnsýslunnar almennt að úrskurða um hvort skilyrði fyrir umsóknum um leyfi, bætur eða styrki séu uppfyllt á grundvelli skriflegra gagna, en ekki til að dæma i ágreiningsmálum milli einstaklinga. Málsmeðferðarreglur fyrir dómstólum eru mun ítarlegri og betur til þess fallnar að leysa úr ágreiningsmálum milli aðila.

Ferlið í umgengnismálum í grófum dráttum

Flest umgengnismál leysast með samkomulagi foreldra án þess að þörf sé á úrskurði. Foreldrar fá aðstoð við sáttamiðlun. Í Noregi fer sáttamiðlun að mestu fram á fjölskylduskrifstofum með aðstoð sérfræðinga. Á Íslandi er sáttameðferð aðallega í höndum fulltrúa sýslumanns.

Ágreiningsmál um börn eru að mörgu leyti mjög sérstæð, enda um mikilvæga persónulega hagsmuni foreldra og barna að ræða. Foreldrar þurfa eðli máls vegna í flestum tilvikum að vinna saman þar til börnin eru 18 ára. Því er mikilvægt sérstaklega fyrir börnin að sem best sátt náist í þessum málum. Dómstólar í Noregi hafa aðlagað málsmeðferðina fyrir dómstólum að sérstöðu barnamála með áherslu á að mál leysist fremur með sátt en dómsúrskurði.

Ef foreldrar ná ekki samkomulagi eftir sáttamiðlun fer málið til dómstóla í Noregi. Á Íslandi er það hlutverk sýslumanns að úrskurða um umgengni ef samkomulag ekki næst, sem er einsdæmi á Norðurlöndunum.

Við meðferð mála fyrir dómstólum bæði á Íslandi og í Noregi hafa dómarar heimild til að afla álits barna með aðstoð sérfræðinga. Í framkvæmd fá dómarar því almennt sálfræðinga til að tala við börn frá 7 ára aldri og meta afstöðu þeirra, enda almennt viðurkennt að það sé mikilvægt að slík samtöl séu í höndum sérfræðinga. Það er vandséð hvernig sýslumannsfulltrúar eiga að afla álits barnanna með viðunandi hætti.

Málsmeðferð hjá dómstólum í Noregi hefst almennt á því að sálfræðingur er skipaður og falið víðtækt umboð til að afla upplýsinga og taka virkan þátt í sáttamiðlunarferlinu. Við fyrstu fyrirtöku á málinu fyrir dómi fara fram skýrslutökur aðila, sálfræðingurinn veitir upplýsingar um samtöl sín við aðilana og kemur með rökstuddar tillögur að hugsanlegum lausnum með hagsmuni barnanna að leiðarljósi.

Á þeim grunni og með virkri aðstoð sálfræðings og dómara við sáttamiðlun er unnið að því að komast að tímabundnu samkomulagi. Lausnirnar eru almennt í þrepum, t.d. ef langt er síðan umgengni hefur farið fram er umgengni smám saman aukin við seinni fyrirtökur. Einnig getur verið þörf á umgengni undir eftirliti, td. vegna ofbeldis eða fíkniefnavanda. Það er heppilegt að nálgast endanlegt samkomulag í þrepum til þess að hægt sé að fylgjast með hvernig gengur, veita aðhald og meta hver reynslan er af fyrirkomulaginu.

Það er mikil áhersla á að ná samkomulagi svo ekki sé þörf á dómsúrskurði sem oft er síður sérsniðin að aðstæðum í hverju máli fyrir sig. Kosturinn við að bíða með endanlegt samkomulag er líka að foreldrar fá aðhald til að fylgja samkomulaginu eftir í lengri tíma og samkomulagið er endurskoðað á 4-6 mánaða fresti þar til endanlegt samkomulag hefur mótast. Þetta ferli tekur yfirleitt 1-2 ár og almennt minnkar harkan í ágreiningi foreldranna eftir því sem líður á málsmeðferðina.

Ef ekki tekst að komast að samkomulagi með sáttameðferð fyrir dómstólunum fer fram aðalmeðferð og málinu lýkur með dómi.

Eins og öll mannanna verk er þetta ekki gallalaust kerfi fremur en önnur kerfi, en með þessum hætti næst yfirleitt með tímanum samkomulag sem báðir foreldrar fylgja, hafa skilning á og virða. Bætt málsmeðferð ætti að fækka þeim málum þar sem mikil óánægja er með niðurstöðuna.

Ég þekki því miður lítið til núverandi framkvæmdar dómstóla á Íslandi í umgengnismálum. Það væri fróðlegt að skoða nánar framkvæmdina með tilliti til þess hversu mikil áhersla og vinna er lögð í sáttaferlið og hvort hlutfallslega stór hluti þessara mála fari í aðalmeðferð. Í sáttaferlinu er mikilvægt að sálfræðingar fái ekki einungis það hlutverk í framkvæmd að afla upplýsinga og skrifa matsgerðir, heldur að þeir taki einnig virkan þátt í sáttamiðlunarferlinu sjálfu og fylgi aðilum eftir með aðhaldi og ráðgjöf.

Það er til mikils að vinna sérstaklega fyrir hagsmuni barna að endurskoða og bæta barnalögin svo betri sátt verði um umgengni við börn, enda vel þekkt að harður ágreiningur milli foreldra hefur oft mjög slæm áhrif á börn. Það væri hægt að bæta málsmeðferð umgengnismála á Íslandi verulega með því að færa úrskurðarvald samkvæmt. barnalögum frá sýslumannsembættunum til dómstóla, til samræmis við barnalögin á hinum Norðurlöndunum.