Nú er kannabisdíól (CBD) til umræðu á Alþingi og heldur f lutningsmaður frumvarpsins því fram að efnið hafi óumdeilanlegt notagildi. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) er hið eina óumdeilanlega notagildi CBD að draga úr áhrifum sjaldgæfrar f logaveiki og þar þarf læknir að vera með í ráðum. Það eru reyndar vísbendingar um að CBD geti hjálpað við kvíða, svefnleysi og verkjum en þetta hefur enn ekki verið staðfest á óumdeilanlegan hátt.

Vissulega er kannabisdíól ekki vímugefandi en við megum ekki gleyma því að það er framleitt úr kannabisplöntu sem skaðar heila ungs fólks. Það er því ekki hægt að líkja því saman við lýsi eða önnur fæðubótarefni sem hafa engin tengsl við svo skaðleg efni. Í Bandaríkjunum er ekkert eftirlit með innihaldi CBD-neysluvara og eru næstum 70% þeirra rangmerkt. Auk þess hefur vímugjafinn THC mælst oftar en ekki í fólki sem taldi sig einungis vera að neyta CBD. Hver ætlar að sjá um eftirlitið á Íslandi – enginn!

Við stöndum okkur almennt vel í lýðheilsu og hér verðum við að stíga varlega til jarðar. CBD er umdeilanlegt. Ef við viljum leyfa CBD til að meðhöndla verki, kvíða og svefnleysi, þá er skynsamlegt að setja það á markað sem lyf enda tilgangurinn að meðhöndla sjúkdómskvilla. Og í stað þess að reyna að normalísera kannabisneyslu á Íslandi væri virðingarverðara ef umræddir þingmenn legðu púður sitt í að auðvelda fólki aðgang að sjúkraþjálfurum, læknum og sálfræðingum til að ráðast að rótum vandans í stað þess að hvetja fólk til að deyfa sig með CBD.