Ég er ansi merkilegur kall, eða í það minnsta það merkilegur að hafa farið í gegnum þó nokkra umboðsmenn á mínum lífstíma. Það hefur reyndar lítið verið fyrir þeim haft og ég hef ekki mikið þurft að pæla í þjónustunni sem er oftast óumbeðin. Umboðsmennirnir koma bara og fara eftir aðstæðum og ég hef satt best að segja ekki gott bókhald yfir þá alla.

Umboðsmaður barna beitti sér einu sinni fyrir hagsmunum mínum. Án þess að vita nákvæmlega hvert hlutverk hans er finnst mér líklegt að hann hafi í ungdæmi mínu barist fyrir afnámi tolla á knallettum og réttindum mínum til að henda grjóti oní skurð. Ég brenndi hins vegar allar brýr að baki mér hjá embættinu þegar ég náði átján ára aldri og finnst ólíklegt að ég eigi afturkvæmt á náðir hans.

Umboðsmaður borgarbúa var ábyggilega rosalega tilbúinn til að veita mér alls konar ráðgjöf sem viðkom borgarlífinu áður en hann sneri við mér bakinu þegar ég fluttist austur á Eyrarbakka. Ég hef enn ekki komið auga á Umboðsmann Árborgarbúa en hann er ábyggilega til húsa í kringum Pylsuvagninn á Selfossi.

Þá hef ég ekki uppfyllt hæfnikröfur til að þiggja þjónustu frá sérhæfðari umboðsmönnum á borð við Umboðsmann íslenska hestsins, en það má að miklu leyti rekja til þess að ég er ekki hestur.

Enn er óupptalinn sá sem mun líklega vinna fyrir mig til æviloka – Umboðsmaður skuldara. Sú langvarandi skuldbinding verður enn tilkomumeiri þegar litið er til þess að hann sinnir líka umboði fyrir nánast alla sem ég þekki.