Stígamótafólk er fremur ósýnilegt í opinberum gögnum. Um 40% af okkar fólki hefur aldrei rætt kynferðisofbeldið sem það varð fyrir við fagfólk og aðeins 10% kæra ofbeldið. Fólk kemur til okkar árum og áratugum eftir að ofbeldið átti sér stað og helstu ástæður þess að það leitar sér hjálpar er að það burðast með langvinnar og alvarlegar afleiðingar af ofbeldinu. Léleg sjálfsmynd, skömm og sektarkennd eru megin þemu í þeim 3000 viðtölum sem eiga sér stað árlega hjá okkur. Sjálfsvígshugsanir, sjálfsköðun, svipmyndir, erfitt kynlíf og tilfinningalegur doði eru dæmi um önnur einkenni. Talið er að um 60% af okkar fólki þjáist af áfallastreitu.

Stígamót bjóða aðeins upp á þjónustu við fólk sem er orðið 18 ára. Þó sögðu 112 í fyrra að ofbeldið gegn þeim hafi verið byrjað áður en þau urðu 10 ára og 70% voru beitt ofbeldi fyrir 18 ára aldur. Algengast er að ofbeldið standi yfir í 1-5 ár eða svo lengi sem ofbeldismaðurinn hefur aðgang að barninu. Þessar tölur eru mikil áskorun til samfélagsins um að mæta börnum sem burðast með erfið leyndarmál.

Skilaboð Stígamóta til yfirvalda og allra stofnanna samfélagsins eru þessi: Tryggjum að öll börn viti að þau eru aldrei ábyrg fyrir ofbeldi og að það er hjálp að fá. Skólarnir eru í lykilhlutverki til þess að mæta brotaþolum. Öll börn ganga í skóla. Þau vita hvert þau leita ef brunabjallan fer í gang, ef þau eru lesblind, með athyglisbrest eða ef þau detta á hnéð. Þau vita hins vegar fæst við hvern þau geta rætt um kynferðisofbeldi eða hvaða ferli fer í gang ef þau segja frá.

Börn eru skynsamt fólk. Þau eru meðvituð um að segi þau frá ofbeldi, geti ofbeldismaðurinn verið settur í fangelsi, fjölskyldan getur splundrast og þau hafa engar sannanir. Oft er ofbeldismaðurinn búinn að tryggja þögn þeirra með hótunum eða með því að koma inn hjá þeim ranghugmyndum um þeirra ábyrgð. Oft er líka um að ræða manneskju sem þeim þykir þrátt fyrir allt vænt um og er að öðru leyti góð við þau. Þeim þykir því oftast skárra að þegja og hlífa þannig umhverfinu, en að opna málið.

Barnaverndarlög gera ráð fyrir því að allir þeir sem fá upplýsingar um kynferðisofbeldi gegn börnum eigi að tilkynna það til barnaverndaryfirvalda. Þetta er eðlileg krafa þar sem um er að ræða einhverja grófustu glæpi sem framdir eru á börnum. Fyrir börn sem ekki hafa haft stjórn á eigin lífi er þetta hins vegar eðlilega ógnvekjandi.

Stígamót hafa stungið upp á að gerð verði tilraun með barnasíma sem hýstur yrði t.d. hjá Barnahúsinu. Hann þyrfti bara að vera opinn tvo tíma á dag. Þessi sími hefði ekki númerabirti og börnum væri frjálst að viðra vandamálin sín án þess að nokkur tæki fram fyrir hendurnar á þeim. Verkefni fagfólksins sem talaði við börnin yrði svo að útskýra fyrir þeim hvers kyns hjálp þau gætu fengið og hvetja þau til þess að opna málin svo hægt væri að tryggja öryggi þeirra.

Öll börn á landinu þyrftu að vita af þessum möguleika. Þetta gæti orðið upphafið að því að fleiri mál yrðu kærð, öruggari tilveru barna og að barnaníðingar þyrftu að hugsa sig betur um áður en þeir meiddu börn.

Höfundur er talskona Stígamóta.