Í nýlegum samræðum við mér töluvert yngri mann um frammistöðu ríkisstjórnar Íslands á því herrans ári 2020 varð honum tíðrætt um orðið „stjórnvöld“. Hann vildi meina að núverandi ríkisstjórn vildi völd en kynni ekki eða vildi ekki stjórna.

Ég hef velt þessu talsvert fyrir mér og finnst að þessi ágæti vinur minn hafi töluvert til síns máls. Orð og efndir stjórnvalda hafa sjaldan farið saman á síðustu mánuðum, að vísu á fordæmalausum tímum, en þá er mikilvægast að standa í lappirnar og gera það sem þarf. Getur verið að stjórnvöld láti upphrópanir á samfélagsmiðlum og æsifréttamennsku í misvönduðum fjölmiðlum hafa áhrif á ákvarðanatöku og aðgerðir á meðan Róm brennur? Það er jú að styttast í næstu alþingiskosningar.

Kórónuveiran og COVID-19 kölluðu á markvissar aðgerðir stjórnvalda, til hjálpar fólki og fyrirtækjum. Var það ekki háttvirtur forsætisráðherra sem lofaði að ríkisstjórnin myndi „taka utan um fólk og fyrirtæki“ á þeim viðsjárverðu tímum sem við nú lifum? Hefur það verið gert?

Því fer víðs fjarri að mati undirritaðs. Þeir einstaklingar sem skipa ríkisstjórn Íslands á þessu kjörtímabili vilja örugglega vel og eru sjálfsagt að gera sitt besta. En þeirra besta er greinilega ekki nóg, því úrræði stórnvalda við þeim hamförum sem dunið hafa á landi og lýð síðan í mars síðastliðnum hafa í besta falli verið misgóð.

Dæmi um úrræði sem ríkisstjórnin hefur boðið upp á:

Hlutabótaleiðin: Fyrst 75/25 prósent svo 50/50 prósent, en ekki hægt að nýta í tengslum við uppsagnarfrest starfsmanna. Þessi leið hjálpaði mörgum fyrirtækjum og einstaklingum yfir fyrsta hjallann, en alls ekki þann erfiðasta. Hann er enn eftir.

Brúarlán: Það var greinilega ekki þörf á þessu úrræði sem stjórnvöld eyrnamerktu 80 milljarða í, en sáralítil eftirspurn var eftir.

Stuðningslán: Hentaði sumum fyrirtækjum, öðrum alls ekki.

Lokunarstyrkir fyrir smærri fyrirtæki: Það var örugglega gott fyrir einyrkja og örfyrirtæki að fá þennan styrk, en ég hef heyrt frá mörgum aðilum sem gátu nýtt sér þetta úrræði að það hafi verið það mikið að gera eftir að þeir opnuðu aftur eftir 6 vikna lokun að þeir hafi unnið til baka tapaðar tekjur, að vísu með mikilli vinnu en hún drepur engan. Á hinn bóginn var þetta úrræði ekki til boða fyrir lítil ferðaþjónustufyrirtæki sem upplifðu lokun í marga mánuði vegna þess að engir ferðamenn gátu ferðast til eða frá Íslandi því flug lagðist að mestu af vegna aðgerða íslenskra og erlendra yfirvalda. En þar eð þessum fyrirtækjum var ekki gert af yfirvöldum að loka skrifstofum sínum vegna sóttvarna þá gátu þau ekki sótt um þetta úrræði, sem hefði svo sannarlega getað nýst mörgum, á tíma þar sem tekjuhrun var algert, ekki í sex vikur heldur í þrjá til sex mánuði og í mörgum tilfellum allt árið 2020 og allt að 97 prósent tekjutap.

85-15 leiðin á uppsagnarfresti starfsmanna: Íþyngjandi skilmálar, eins og fylgja flestum úrræðanna, enda virðist sem þeir sem bera ábyrgð á samsetningu þeirra og þeim lögum sem sett voru í tengslum við þau, hafa takmarkaða reynslu á og þekkingu af rekstri fyrirtækja.

Markaðsátak í ferðaþjónustu: Að mínu mati var þarna kastað einum og hálfum milljarði út um gluggann. Tímasetningin var röng og aðferðin sem beitt var við þessa aðgerð var sömuleiðis afar ámælisverð. Á sama tíma og þessu úrræði var beitt fékk Ísland ókeypis auglýsingu a la Eyjafjallajökulsgos í formi kvikmyndarinnar Eurovision Song Contest – The Story of Fire Saga. Það þurfti ekki markaðsátak á sama tíma og þessi vinsæla kvikmynd auglýsti Ísland úti um allan heim. Og alls ekki í þeim litla ferðaglugga sem opnaðist 15. júní en var lokað aftur 19. Ágúst.

Ferðaávísunin: 5.000 kr. á mann! Átti þetta að vera grín? Fjármuni þá sem veitt var í þetta úrræði hefði verið hægt að nýta svo miklu betur.

Ferðaábyrgðarsjóður: Ferðaþjónustan beið í þrjá til fjóla mánuði eftir alvöru úrræði frá stjórnvöldum vegna þess höggs sem mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar fékk við kórónuveiruna og COVID-19. Loksins þegar það kom þá fögnuðu margir og sjálfsagt hjálpar þetta úrræði mörgum fyrirtækjum í ferðaþjónustu til að lifa af mestu hremmingar sem undirritaður hefur upplifað á 34 árum í ferðaþjónustu. Þetta lengir hins vegar í hengingarólinni hjá öðrum, því lánum fylgir krafa um endurgreiðslu og það bendir flest til að afleiðingar COVID verði bæði lengri og harðari heldur en nokkur átti von á. Það sem er sérstaklega ámælisvert við þetta úrræði er að þessi nýi sjóður skuli eingöngu vera lánasjóður. Það voru hæg heimatökin að afla umtalsverðra tekna í sjóðinn með samstilltum aðgerðum ferðaskrifstofa, Ferðamálastofu og ráðuneytis ferðamála. Tillögur þar að lútandi voru kynntar fyrir stjórnvöldum og Ferðamálastofu. Fjármagn hefði einnig getað komið úr brúarlánafjármagninu sem engin eftirspurn reyndist eftir. Þá hefði verið hægt að veita styrki úr sjóðnum en ekki eingöngu lán og þannig styðja við ferðaskrifstofur á svipaðan hátt og gert er í ýmsum nágrannalöndum okkar.

Af ofanrituðu má vera ljóst að ég er fjarri því að vera ánægður með aðgerðir og úrræði stjórnvalda á þeim fordæmalausu tímum sem við nú lifum. Stjórnvöld hafa beitt völdum sínum til að setja á laggirnar aðgerðir – þótt margar þeirra hafi alls ekki hentað. Þá hefur stjórnun aðgerðanna verið vægast sagt bágborin, á stundum hálfgerð óstjórn, jafnvel skuggastjórn. Verkefnið hefur alls ekki verið auðvelt, en of margt hefur farið úrskeiðis svo ég gef ríkisstjórn Íslands falleinkunn fyrir frammistöðuna.