Hafnar eru fram­kvæmdir við Vatns­holt við Há­teigs­veg. Við þetta minnkar leik­svæði barna til muna í hverfinu. Þetta er miður. Öll höfum við verið börn og þau okkar sem komin eru yfir miðjan aldur muna vel hvað það var gaman að geta leikið sér á opnum svæðum í ná­grenni skóla og heimilis.

Ég dáist að þraut­seigju barnanna sem stóðu ofan á gamla vatns­tankinum við Há­teigs­veg til að mót­mæla fyrir­huguðum fram­kvæmdum. Gleymum því aldrei að börn hafa sama rétt og full­orðin. Rödd þeirra er hins vegar allt of oft hunsuð. Börn eru nefni­lega oft skynugri og sjá betur lausnir en við sem full­orðin erum. Borgar­yfir­völdum væri hollt að beygja sig oftar niður til jafns við börnin og spyrja þau hvað þeim finnst. Því miður er of seint að stöðva fram­kvæmdir við Vatns­holt en látum það verða okkur víti til varnaðar og hættum frekari land­vinningum í þágu þéttingar byggðar í ná­grenni Sjó­manna­skólans. Okkur vantar fleiri opin svæði, ekki færri.

Nú standa yfir fram­kvæmdir í ná­grenni Há­teigs­skóla. Í stað þess að stækka helgunar­svæði skólans, bæði með hlið­sjón af stærra leik­svæði og byggingu fyrir ung­linga­deild skólans, þá tóku borgar­yfir­völd þá vondu á­kvörðun að heimila í­búða­byggingar á um­ræddu svæði. Þetta er borgar- og skipu­lags­yfir­völdum til skammar. Um­ræddar á­kvarðanir bera vott um skamm­sýni og þröng­sýni svo furðu sætir. Hér er ekki verið að hugsa um betra mann­líf og hags­muni barnanna okkar heldur ein­hverja aðra hags­muni. Hverra hags­munir skyldu það vera?