Í 120. grein laga um kosningar til Alþingis stendur þetta um ógildingu kosningar:

„Ef þeir gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns sem ætla má að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar úrskurðar Alþingi kosningu hans ógilda og einnig án þess ef þingmaðurinn sjálfur, umboðsmenn hans eða meðmælendur hafa vísvitandi átt sök á misfellunum, enda séu þær verulegar. Fer um alla þingmenn, kosna af listanum, eins og annars um einstakan þingmann ef misfellurnar varða listann í heild.“

Miðað við það sem fram hefur komið um brot á kosningalögum í Norðvesturkjördæmi sé ég ekki að neitt þeirra brota leiði til ógildingar kosningarinnar skv. þessari grein laganna. Kannski má deila um túlkun ákvæðisins. Þar kemur til kasta þeirra þingmanna sem kosnir voru skv. væntanlegri niðurstöðu Landskjörstjórnar og hún sendir Alþingi til úrskurðar. Þeir þingmenn munu ákvarða um gildi kosningarinnar – áður en þingið hefur staðfest kjörbréf þeirra.

Árið 1909 ógilti Alþingi kosningu dr. Valtýs Guðmundssonar á Seyðisfirði 1908. Hann fékk 57 atkvæði en síra Björn Þorláksson 56, átta seðlar voru ógildir og einn auður. Uppkosning fór fram skömmu síðar. Þá féll dr. Valtýr, fékk 54 atkvæði en síra Björn 67.

Kosningar til sveitarstjórna og almennar atkvæðagreiðslur þar hafa verið ógiltar í nokkur skipti. Einu sinni vegna þess að kjörseðlar þóttu of gagnsæir.

2011 úrskurðaði Hæstiréttur að kosningar til Stjórnlagaráðs 2010 skyldu ógiltar. Það var vegna ýmissa formlegra brota á kosningalögum. Ekki varð séð að þessi brot hefðu haft nokkur áhrif á úrslitin. Þess vegna kom túlkun Hæstaréttar mér og mörgum öðrum mjög á óvart.

Nokkrir núverandi þingmenn sögðust sammála niðurstöðu Hæstaréttar 2011. Fróðlegt verður að sjá hvernig þeir greiða atkvæði núna.

Brot á ákvæðum um leynilega kosningu virðast ekki falla undir ákvæði kosningalaga um ógildingu kosningar. Afi minn, Ólafur Þ. Kristjánsson, var oft kjörstjórnarmaður í Hafnarfirði. Hann sagði mér glettnislega að í kosningunum um sambandsslit við Dani og nýja stjórnarskrá 1944 hafi öll ákvæði kosningalaganna verið brotin! Meðal annars hefðu nokkrir Danir sýnt kjörseðil sinn þegar þeir kusu – til að láta alla vita að þeir hefðu kosið með sambandsslitum.

Í greinargerð sem ég skrifaði fyrir forseta Alþingis 2020 vegna kosningalagafrumvarps benti ég á að ekki væri heppilegt að nýkjörnir þingmenn úrskurðuðu um eigin kosningu. En því væri ekki hægt að breyta í kosningalögum, af því að þetta er stjórnarskrárbundið.

Ég benti á dæmi úr ævisögu Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Th. Jóhannesson. Þar kemur fram að eftir haustkosningar 1942 urðu miklar deilur á þingi um kjörbréf Gunnars. Hann hafði verið kosinn í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu. Kristján Jensson í Ólafsvík sagði opinberlega að flokksbræður Gunnars hefðu mútað kjósendum fyrir kosningar – „veitt vín og borið fé á fólk til að tryggja Gunnari Thoroddsen fylgi“ (bls. 179).

Í ævisögunni styðst Guðni Th. við ýmis plögg Gunnars frá þessum tíma, en Gunnar varðveitti þau vitandi vits. Þar kemur skýrt fram að ásakanir Kristjáns Jenssonar voru réttar. Einnig eru nefndar mútur í formi gaddavírs, síldarmjöls og góðrar munnhörpu.

Meirihluti Alþingis samþykkti kjörbréf Gunnars. Múturnar falla greinilega undir fyrrnefnt ákvæði núverandi kosningalaga. Samkvæmt þeim hefði átt að ógilda kosninguna. En Alþingismenn haustið 1942 höfðu ekki ævisöguna undir höndum – enda óskrifuð þá.

Og Kristján Jensson var fundinn sekur um meiðyrði (eða fjölmæli eins og Gunnar orðaði það athæfi síðar í merkri doktorsritgerð sinni). Kristján var dæmdur til greiðslu sektar og sakarkostnaðar.

Mér vitanlega hafa engar þingkosningar í vestrænu lýðræðisríki verið úrskurðaðar ógildar – a.m.k. síðustu öldina. Ég veit þó að í mörgum þeirra hafa kosningalög verið brotin með alvarlegri hætti en núna í Norðvesturkjördæmi.

ÖSE sendi ekki eftirlitsmenn til Íslands í þetta skipti, en hafa gert það í undanfarandi kosningum. Ég óskaði eftir því á fundi með þeirra mönnum að þetta yrði einnig gert núna. Þeir töldu það ástæðulaust. Þeir hefðu sannfærst um það á undanförnum árum að framkvæmdin á Íslandi hefði verið til fyrirmyndar. Að vísu hefði ÖSE gert athugasemdir við ójafnt atkvæðavægi, en ekkert hefði bent til annars en að kosningarnar sjálfar hefðu farið heiðarlega fram, þrátt fyrir einhverja galla.