Hefðbundnir fjölmiðlar eiga í tilvistarkreppu um þessar mundir. Hvernig vitum við það? Jú, það er vegna þess að fjölmiðlar fjalla mikið um þessa tilvistarkreppu. Þeir hafa áhyggjur af því að fólk skilji ekki nógu vel hvað þeir eru mikilvægir. Þeim finnst sjálfum sannarlega að þeir séu mikilvægir, enda mundu þeir annars ekki fjalla svona mikið um mikilvægi sitt.

Og vegna mikilvægis síns hefur gott fjölmiðlafólk mikinn metnað. Það mætir ekki bara í vinnuna til þess að fá borguð laun heldur til að sýna hvað í þeim býr. Góður blaðamaður mætir með keppnisskapið, tilbúinn að eltast við fréttir og keppast við að vera á undan öðrum með nýjustu tíðindi, gera þau skiljanleg, setja þau í samhengi og skilja keppinautana á öðrum fjölmiðlum eftir í sárum. Og þegar ein frétt er komin út þá hefst slagurinn um þá næstu. Góður blaðamaður starfar ekki bara við blaðamennsku, heldur er hann blaðamaður allan daginn og alla daga. Öll tilveran hverfist um hlutverkið.

Órökréttur metnaður

Metnaður blaðafólks fyrir starfinu sínu er þó ekki mjög rökréttur í augum þeirra sem lært hafa hagfræði. Raunar þarf ekki að kunna mikið meira en að slá inn launatölu og deila í vinnustundir til þess að sjá hversu galin fjárhagsleg ákvörðun það er að starfa af metnaði sem blaðamaður. Það er líka þannig að stór hluti bestu blaðamannanna endar á því að flytja sig úr fjölmiðlunum og yfir til stórfyrirtækja eða opinberra stofnana þar sem hægt er að fá margfalt betri laun og þægilegri lífskjör fyrir að snikka til orðsendingar, fréttatilkynningar og hjálpa forstjórum við að fara ekki á taugum í blaðaviðtölum.

Þegar góður blaðamaður kveður fjölmiðil til þess að taka við stöðu fjölmiðlafulltrúa sitja aðrir á ritstjórninni eftir eins og einhver hafi dáið, eða eitthvað í einhverjum hafi dáið. Betra að vera barinn þræll en feitur þjónn, er þá hugsað. En öðru hverju gýs eflaust upp í flestum góðum blaðamönnum óskin um að eitthvað stórfyrirtækið bjargi þeim úr harkinu: „Er pláss fyrir mig í björgunarbátnum? Ég lofa að hætta að leita að sannleikanum bara ef ég fæ notalegt pláss og get kannski farið stundum í frí til útlanda með börnunum,“ hugsa þeir þá.

Það gerði ég að minnsta kosti. Eftir að hafa unnið á Fréttablaðinu í nokkkur ár og aldrei talið vinnustundirnar buðust mér miklu hærri laun og skynsamlegri vinnutími í Landsbankanum. Reyndar ekki við að vera fjölmiðlafulltrúi, heldur við markaðssetningu, meðal annars á Icesave innlánareikningum. Þar sannaðist ágætlega á sjálfum mér sú kenning mín að maður fái að jafnaði verst borgað fyrir gagnlegustu störfin, betur fyrir þau gagnslitlu en allra best fyrir þau sem eru beinlínis skaðleg.

Mikilvægi staðfest

Það er nefnilega furðuleg staðfesting á mikilvægi fjölmiðla að „markaðurinn“ er tilbúinn að borga fólki miklu meira fyrir að reyna að hafa áhrif á fréttir heldur en fyrir að skrifa þær. Og í þessari staðreynd felst líka augljós hætta.

Þótt það geti verið þreytandi að hlusta á fjölmiðlafólk tala um hversu mikilvægt það er í samfélaginu þá verður ekki framhjá því litið að fjölmiðlafólkið hefur rétt fyrir sér. Góðir og frjálsir fjölmiðlar eru jafnnauðsynlegir í lýðræðissamfélagi eins og reglulegar kosningar. Með öðrum orðum—án góðra fjölmiðla er lýðræðið óhugsandi.

Að sjálfsögðu á þetta ekki við um fréttir af ástarmálum áhrifavalda eða klæðaburð kvikmyndastjarna. Slíkt hefur ekki áhrif á lýðræðið. Fréttir sem eru skrifaðar sem áróður fyrir tiltekna hagsmuni eru ennþá verri. Það er einungis sú tegund fréttamennsku sem að jafnaði vekur ólgu, reiði, hræðslu og fyrirlitningu valdastéttanna sem er raunverulega nauðsynleg til að viðhalda lýðræðinu. Fjölmiðlar eiga að vera vörn almennra borgara gagnvart öllu valdi í samfélaginu; hvort sem það er pólitískt, trúarlegt eða efnahagslegt vald.

Þar sem valdhafar hafa að jafnaði ríka tilhneigingu til þess að ljúga og ýkja þegar það hentar þá er mikilvægasta hlutverk fjölmiðla að efast. Þetta er þreytandi fyrir valdafólk og meðal þess virðist oft sáralítill skilningur á nauðsyn óþolandi fjölmiðla. Þar virðist útbreiddur sá misskilningur að góð blaðamennska felist í að raða saman á snyrtilegan hátt fréttatilkynningum sem berast frá fjölmiðlafulltrúum fyrirtækja og stofnana. Þetta er kolrangt.

Blaðamenn fóru í verkfall í gær en áður voru margir góðir fyrir löngu búnir að gefast upp. Þegar launakjör í blaðamennsku eru með þeim hætti að reynslumikið og þroskað fólk getur varla leyft sér þann munað að starfa á þeim vettvangi þá eru miklu stærri og mikilvægari verðmæti í húfi heldur en fjárhagsleg afkoma einstaka fjölmiðla. Þótt ótrúlegt megi virðast þá er nefnilega starf blaðamannsins mikilvægara í samfélaginu en starf fjölmiðlafulltrúans.