Nú hefur (loksins) komist skriður á aðstöðumál Þróttar og Ármanns, hverfisíþróttafélaga í Laugardalnum í Reykjavík, eftir að borgarráð samþykkti tillögu borgarstjóra um að ný nefnd ætti að skila tillögum að framtíðarskipan uppbyggingar félaganna í upphafi næsta árs. Þetta kemur sennilega mörgum á óvart enda hefur öll umræða um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Laugardal snúist um sérsambönd ÍSÍ og þarfir þeirra. Á einhvern óskiljanlegan hátt hefur tekist að skauta fram hjá þeirri staðreynd að lang umfangsmesta íþróttastarfsemin í dalnum fer fram á vegum íþróttafélaga sem eiga heimili sitt þar, í Þrótti, Ármanni og reyndar öðrum stórum félögum sem líka reka umfangsmikla starfsemi í Laugardalnum þar sem iðkendur skipta hundruðum á hverjum stað fyrir sig. Öll þessi félög vilja vaxa og dafna og fá betri aðstöðu rétt eins og fyrrgreind sérsambönd.

Staðan í Laugardalnum

Samkvæmt iðkendatölum ÍBR er knattspyrnudeild Þróttar nú sú fjölmennasta í Reykjavík. Félagið hýsir 950 iðkendur á einum gervigrasvelli 2/3 hluta úr ári. Aðstaðan er ekki félegri en svo. Að auki iðkar félagið handknattleik og blak við þröngan kost í Laugardalshöll sem oft er upptekin við að þjóna öðrum. Í heild tapar félagið ríflega 30% af æfingatíma sínum á hverjum vetri vegna viðburða í Laugardalshöll. Lengst af hefur höllin verið lokuð og læst á sumrin. Ármann er líka illa statt, eitt fjölmennasta félag landsins, dreift um alla borg. Það hefur enga félagsaðstöðu og nánast enga búningsaðstöðu fyrir á annað þúsund fimleikaiðkendur svo dæmi sé tekið.

Þjálfarar félagsins skipta um föt á salernum eða á skrifstofu starfsmanna. Við þetta ástand bætist að í Laugardalnum, hverfi sem telur fjóra grunnskóla, er ekkert íþróttahús undir skólaíþróttir sem stendur undir nafni og skólar þurfa ýmist að leita í Ráðstefnu- og viðburðahöllina þegar hún er opin, í bardagasali Ármanns eða í sérhannað hús TBR til að uppfylla kröfur um íþróttakennslu samkvæmt námskrá og reyndar eru áhöld um hvort þeim tekst að uppfylla hana.

Skynsamleg umræða um forgangsröðun við uppbyggingu í Laugardalnum leiðir því fljótt í ljós að brýnasta verkefnið sem við blasir snýr að íbúunum í hverfi sem verður innan fárra ára fjölmennasta hverfi Reykjavíkur. Íþróttafélög og skólar á þessu svæði hafa setið eftir í samanburði við önnur hverfi í Reykjavík. Það blasir sömuleiðis við öllum í íþróttahreyfingunni í Reykjavík, sem ekki hefur verið of sæl af sínu, að ef borginni (einni sveitarfélaga) verður gert að setja milljarða í uppbyggingu á sérhönnuðum húsum og leikvöllum fyrir sérsambönd, þá þrengist hressilega um í uppbyggingu fyrir börn og unglinga og aðra iðkendur í Reykjavík. Við leyfum okkur að efast um að sú forgangsröðun njóti stuðnings.

Hugmyndir Þróttar

Vegna þess sem að ofan er lýst hefur Knattspyrnufélagið Þróttur á undanförnum árum unnið að því í samvinnu við Reykjavíkurborg, Ármann, grunnskólana og marga fleiri að undirbúa uppbyggingu á aðstöðu í Laugardalnum sem dugar til að þjóna þeim fjölda íbúa sem fyrirsjáanlegt er að leiti eftir þjónustu á næstu árum. Tillögur Þróttar miða að því að nýta íþróttasvæði í dalnum mun betur en nú er gert, auka samvinnu við skóla til hagræðingar í rekstri og fjárfestingu, hlífa grænum svæðum og gefa eftir – gegn annarri uppbyggingu – tvö stór svæði sem aðeins nýtast á sumrin.

Með þessum tillögum vill Þróttur leggja sitt af mörkum til þess að leysa þann hnút sem uppbygging íþróttamannvirkja í Laugardalnum er óneitanlega í og stuðla að betri nýtingu þessa dýrmæta útivistarsvæðis. Ekki er hægt að taka alvarlega hugmyndir um að ýta íþróttafélögum að hluta eða heild af sínum svæðum í Laugardal, til að rýma fyrir þjóðarleikvangi af neinu tagi. Loftkastalar af því taginu, ábyrgðarleysi og ákvörðunarfælni ríkis og borgar sem og stefnuleysi íþróttahreyfingarinnar hefur umfram annað valdið því að allt hefur setið fast í mörg ár, þó vonandi sé það að breytast.

Hvar er framsýnin?

Öllum er ljóst að það þarf að leysa vanda sérsambanda ÍSÍ en það verður líklegast ekki gert í Laugardalnum svo vel fari. Þar er lítið pláss fyrir ný og stærri íþróttamannvirki, þvert á það sem halda mætti, dalurinn er þröngur og svæðið er fyrst og fremst útivistarsvæði fyrir allan almenning. Þess utan eru eldri mannvirki léleg mörg hver og kostar milljarða að endurbyggja þau.

Hví skyldi þjóðarleikvangur fyrir inniíþróttir ekki geta verið hvar sem er á höfuðborgarsvæðinu? Nýr þjóðarleikvangur í knattspyrnu þarf heldur ekki að vera í Laugardal, sennilegast er í reynd miklu betra að reisa hann samkvæmt nútímakröfum annars staðar og spila landsleiki á Laugardalsvelli þar til nýr völlur verður tilbúinn. Laugardalsvöllur gæti svo í smækkaðri mynd þjónað sem þjóðarleikvangur fyrir frjálsar íþróttir í framtíðinni auk annarra viðburða eða kappleikja.

Í Laugardalnum ætti að láta duga að byggja upp góða íþróttaaðstöðu fyrir þau íþróttafélög sem þar eru nú, fyrir skóla og almenning en finna öðrum hugmyndum pláss utan byggðar – rétt eins og íþróttaaðstöðu í Laugardal var á sínum tíma fundið pláss utan byggðar þegar hún var reist. Það var á þeim tíma mikil framsýni en það er eins og hana skorti algerlega nú. Íþróttahreyfingin, ríki og Reykjavíkurborg, auk annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, ættu að taka saman höndum og finna ný svæði undir íþróttamannvirki framtíðarinnar og hefja uppbyggingu á þeim strax. Slíkt myndi þjóna hagsmunum allra. Við skorum á kjörna fulltrúa okkar Reykvíkinga að taka af skarið. Íbúar í Laugardal, grunnskólarnir, börn og unglingar hafa beðið of lengi eftir lausnum í þessu máli.