Í upp­hafi sumars átti ég á­huga­vert sam­tal um Guð, sem oftar. Að þessu sinni snerist um­ræðan um þennan dæmandi, refsandi Guð sem birtist okkur í Gamla testa­menti biblíunnar. Spjallið klifraði síðan í betra skyggni og vatt sér yfir í pælingar um þennan allt­um­vefjandi Guð Nýja testa­mentisins. Ég var sum­sé á hlaupunum með skokk­hópnum þegar um­ræðan tókst á flug.

Í fram­haldinu dýpkaði um­ræðan og hóf að kryfja sí­stætt verk­efni guð­fræðinnar og heim­spekinnar; breytist Guð?

Koll­gátuna í hópnum átti sjálf­sagt sá sem engu trúir: „Guð getur að­eins þróast með manninum“ – „og öfugt“. Ég er samt ekkert viss um að við séum að hugsa þetta eins. Um leið og gátan var leyst gall í snjall­úrinu hans að „peisið“ væri undir við­miði og að ó­breyttu næði hlauparinn ekki settu marki. Kannski Guð búi í snjall­úrinu, amma. Hið dæmandi lög­mál er víða.

Seinna um sumarið var ég staddur í vina­hópi á Ströndum. Það er bein tenging við undrið að dvelja í Ó­feigs­firði al­bjarta sumar­nótt. Sjá himininn veita deginum bál­för guðanna – upp­lifa sólina hníga og rísa á fremsta bekk. Það er bara ekkert eins og þetta.

Mörg undur til­vistarinnar helga sann­færinguna um til­vist Guðs. Annað undur er kraftur kær­leikans sem birtist í bar­áttu hin­segin fólks, sem hefur breytt öllu sam­fé­laginu.

Guðs­myndin breytist. Kristur er trans í bar­áttu trans sam­fé­lagsins fyrir viður­kenningu og mennsku. Kristur er hommi þegar ýjað er að kvóta­setningu þeirra. Kristur er út­vörður mennskunnar, kær­leikans og fjöl­breyti­leikans. Enda fjöl­breyti­leikinn sköpun hennar.

Guð breytist – og í Ó­feigs­firðinum er hán eins, um aldir alda.