Þann 1. júní síðastliðinn birti Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar stutta grein í Fréttablaðinu sem tilgreindi áherslur í orkusölu á tímum mikillar eftirspurnar eftir raforku. Í greininni kemur fram sú afstaða Harðar að markaður fyrir útflutning á rafeldsneyti sé enn ekki við sjónarrönd og því réttast að forgangsraða orkusölu í þágu annarrar starfsemi.

Um þessar mundir er Evrópusambandið að leggja lokahönd á samansafn af tilskipunum og reglugerðum sem bera nafnið „Fit for 55 pakkinn“, með vísan í markmið ESB um að draga útlosun saman um sem nemur 55% fyrir árið 2030 og ná kolefnishlutleysi fyrir ársbyrjun 2050. Rafeldsneyti gegnir lykilhlutverki í vegferð ESB að kolefnishlutleysi og vonir standa til að ná framleiðslu vetnis og afleiða þess úr sem nemur 300 MW í dag í 80 GW eigi síðar en 2030. Stóraukin eftirspurn eftir rafeldsneyti til að koma á orkuskiptum er á bak við þessar fyrirætlanir.

Í komandi uppfærslu á tilskipun ESB um endurnýjanlega orkugjafa verður birgjum á eldsneytismarkaði gert að búa svo um að 2,6% af orkuþörf í samgöngum ESB sé mætt með rafeldsneyti, en það jafngildir vexti upp á u.þ.b. 5 milljón tonn á ári fram til 2030. Framboð í dag er nánast ekkert og því ljóst að stærð markaðarins er ákjósanleg. Aðrar reglur „Fit for 55 pakkans“ styðja við aukna eftirspurn eftir rafeldsneyti, en í því skyni má nefna yfirhalningu skattalöggjafarinnar sem skattleggur eldsneyti á grundvelli orkuinnihalds og FuelEU Maritime reglugerðina, sem skapar skipaeigendum hvata til að búa skip sín undir að geta siglt á rafeldsneyti. Vert er að nefna að hér er ekki um framtíðarmúsík að ræða. Stjórnvöld hér í Brussel miða að því að „Fit for 55“ komi til framkvæmda að mestu leyti strax á næsta ári. Tími rafeldsneytis er runninn upp.

Ísland er vel í stakk búið til að mæta þessari miklu eftirspurn eftir rafeldsneyti í ljósi endurnýjanlegra orkuauðlinda sinna og nálægðar við Evrópumarkaðinn. Reglur sem nú eru í bígerð veita sterka hvata fyrir framleiðslu rafeldsneytis á svæðum þar sem hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa er meira en 90%, sem á nánast einungis við um Ísland, Svíþjóð, Noreg og Danmörku. Orkuverð er heppilegt samanborið við virði eldsneytisins á markaði og forsendur fyrir arðbæra framleiðslu á stórum skala því til staðar.

Markaður fyrir rafeldsneyti er aðgengilegur hér og nú og markar stórkostlegt tækifæri til verðmætasköpunar á Íslandi. Ég hvet Landsvirkjun til að endurskoða áherslur sínar í orkumálum m.t.t. rafeldsneytis á grundvelli þróunar mála í Evrópu.