Eftir athuganir í nokkrum löndum þykir staðfest að kórónaveiran dreifist í lofti sem úðasmit (aerosol) engu síður en dropasmit (droplets). Dropar eru þungir og berast sjaldan lengra en einn metra í lofti. Í úða eru agnirnar örsmáar og geta borist langar leiðir.

Í stöðnuðu lofti getur veiran verið á sveimi í allt að sólarhring. Fyrir utan grímur er góð loftræsing besta vörnin.

Ef herbergið er lítið nægir að opna glugga. Einfaldast og ódýrasta aðferðin við að mæla gæði loftræstingar í herbergi eða sal, sem fólk er í, er að mæla magn koltvísýrings í loftinu. Koltvísýringur, CO2 , kemur frá öndun okkar. Hann er úrgangsefni frá bruna í frumunum og skilst frá blóði í lungunum. Magn hans er lágt þar sem loftskipti eru ör.

Við eldgos losnar koltvísýringur úr bráðinni kviku þegar hún kólnar og þrýstingur á hana minnkar. Í kjölfar eldgossins í Geldingadal ætti að vera til mikið af CO2-mælum í landinu.

Ættum við ekki að taka upp mælingar á koltvísýringi í skólum, tónlistarsölum og leikhúsum?

Það væri ekki eins og við værum að finna upp hjólið því á Spáni eru slíkar mælingar framkvæmdar í faraldrinum. Við leit á netinu fann ég nokkrar greinar um þetta. Mælar sem Spánverjar nota kosta á netinu um 150 evrur (22 þúsund krónur). Þeir sýna CO2-gildi, og til viðbótar hitastig og rakastig.

Magn koltvísýrings eykst

Í lokuðu herbergi með fjölda manns er CO2-gildið fljótt að stíga og hættan á úðasmiti eykst. CO2 er auk þess eitur í sjálfu sér. Ef fólk er um langan tíma í andrúmslofti með vaxandi styrk af CO2 má búast við því að syfja og þreyta sæki að einhverjum. Þá tala menn um loftleysi en í raun hefur súrefnismagnið í loftinu aðeins lækkað lítillega eða um það magn af koltvísýringi sem kom í staðinn fyrir súrefni við öndunina. Þess vegna er sennilegt að það sé koltvísýringurinn sem valdi áhrifunum.

Fólk sem er lokað inni í loftþéttum klefa deyr fyrr úr koltvísýringseitrun en úr súrefnisskorti. Koltvísýringur er þyngri en loft (44 á móti 29). Hann er lyktarlaus.

Rakastig of lágt

Að vetrarlagi er rakastig í húsum á Íslandi of lágt. Þurrt loft eykur hættu á sýkingu í öndunarfærum því slímhúðin þornar. Auk þess dreifist úðasmit lengra í þurru lofti en röku. Um þetta eru til rannsóknir og greinar. Rakatækjum sem kosta undir 30 þúsund krónum mætti koma fyrir í vinnuherbergjum og skólastofum.

Með því að auka gæði lofts í húsakynnum þar sem fólk kemur saman má bæta líðan þess og heilsu og um leið minnka hættu á smiti. Það væri kostur ef þau sem nota stofur og minni sali gætu sjálf lesið á skjá hver gæðin eru og gripið inn í ef gildin fara út fyrir mörk. Í stærri sölum lægi ábyrgðin hjá húsvörðum en gildin þyrftu að vera sýnileg fyrir alla.

Komum loftskiptum og rakastigi í lag þar sem og þegar þau eru ekki viðunandi!