Ágætur meistaranemi í geimverkfræði birti mynd af gosstöðvunum í Geldingadölum á fb-síðu sinni með svofelldum orðum: „Hér má sjá eitt helsta eyðingarafl jarðarinnar og, já, svo er þarna lítill gosketill í bakgrunni!“ Þegar rýnt er í myndina standa þar nokkrar smáar manneskjur í stórbrotnu landslagi; helsta eyðingarafl jarðar.

Dymbilvikan, frá pálmasunnudegi til laugardags, er rannsókn á eyðingarmætti manna. Við fylgjumst með meistaranum frá Nasaret sem áunnið hefur sér ást okkar og tiltrú með framgöngu sinni og sláumst í hóp með mannfjöldanum sem fagnar honum veifandi pálmagreinum þar sem hann kemur hógvær og ríðandi á asna inn í borgina. Þetta er maðurinn sem tekið hefur þá áhættu að elska allt og alla, líta hverja persónu með virðingu og samlíðun og beygja sig aldrei fyrir neinu hótunarvaldi. Svo fylgjumst við með því hvernig hann er svikinn, yfirgefinn, ranglega dæmdur, hæddur og kvalinn.

Píslarsaga Jesú er óvægin lýsing og greining á mannlegri grimmd. Niðurstaða rannsóknarinnar kemur á óvart: Gerandinn veit ekki hvað hann aðhefst! Hann er ekki með sjálfum sér. „Faðir, fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gera.“ Á Golgata afhjúpast grimmdin sem vanmáttur og heimska.

Að morgni páskadags stendur svo þessi særði og níddi líkami lifandi frammi fyrir vinum sínum og biður þau að staðfesta tilveru sína – sjá sig, snerta sig og gefa sér eitthvað að borða.

Páskadagsmorgunn er stundin þegar hjartað hlær af feginleika því ástin á valdinu hefur tapað fyrir valdi ástarinnar. Þú kemur of seint, segja vinir og nemendur Jesú við grimmdarvaldið á öllum öldum. Þú kemur of seint. Kristur er upprisinn og hans er valdið!