Hlutverk Landspítala háskólasjúkrahúss er fyrst og fremst það að vera bráða- og háskólasjúkrahús. Það teiknar þá upp þá mynd að spítalanum er ætlað það hlutverk að sinna starfsnámi heilbrigðisstétta og að sinna bráðveikum og slösuðum.

Þegar hlutverki bráða- og háskólasjúkrahússins sleppir, standa eftir ýmis læknaverk sem vel væri hægt að framkvæma annars staðar, meðal annars til þess að veita bráða og lyflækningaþjónustu aukið rými.

Þau læknisverk sem undir það falla eru t.d. Liðskiptiaðgerðir, liðþófaaðgerðir, augnsteinaaðgerðir, skimun eftir krabbameini og margar aðrar aðgerðir sem of langt mál væri að nefna hér. Engu að síður þyrfti svo spítalinn gæti sinnt starfsnámsskyldum sínum og til þess að viðhalda færni þeirra lækna sem á honum starfa, að skilja ákveðinn hluta ofangreindra aðgerða eftir á spítalanum.

Nú er það svo að læknar, eins og reyndar margt annað fólk, eru ekki endilega ginnkeyptir fyrir því að vinna hjá hinu opinbera og vilja njóta frelsis til þess að starfa á eigin vegum. Ef að þeim ekki gert það kleift að njóta þess frelsis hér á landi, þá fara þeir bara þangað sem þeir geta notið þess. Næg eru tækifærin annars staðar ef starfsumhverfið hér stenst ekki væntingar.

Ég persónulega þekki nokkra einstaklinga sem gefist hafa upp á því að hanga mánuðum saman, óvinnufærir á biðlista hins opinbera eftir aðgerð Landspítalanum og leitað til einkarekinna stofa til þess að fá bót meina sinna. Það gerðu þeir auðvitað gert á eigin kostnað þar sem Sjúkratryggingum Íslands er af ástæðum sem fyrst og fremst eru pólitískar, óheimilt að semja við einkareknar stofur um tilteknar aðgerðir. Enginn þessara einstaklinga sem ég þekki til er þó efnaðri en gengur og gerist. Heldur eru þetta bara einstaklingar sem vilja vera þátttakendur í þessu samfélagi okkar og njóta sín í leik og starfi.

Þessi sviðsmynd sem hér er teiknuð upp, er afar skýrt dæmi um það sem kallað er tvöfalt heilbrigðiskerfi, að þeir sem hafa það aðeins betur en þeir sem verst hafa það geti keypt sig fram fyrir röðina á biðlistum.

Gegn þessu mætti þó sporna við og fækka verulega á hinum opinberu biðlistum ef að Sjúkratryggingar Íslands, fengju heimild fyrir hönd hins opinbera, að semja við einkareknar stofur um framkvæmd aðgerða sem fólk alla jafna þarf að bíða mánuðum saman eftir að komast í. Hin leiðin, mun ómanneskjulegri, væri að banna einkarekna heilbrigðisþjónustu. Sú leið myndi þó ekki gera annað en að auka á vandann og lengja biðlista enn frekar.

Hið tvöfalda heilbrigðiskerfi mun lifa góðu lífi svo lengi sem meintir pólitískir andstæðingar þess hamast við sem aldrei fyrr að fóðra það með pólitískum rétttrúnaði sínum. Heilsa og velferð fólks hlýtur að vera mikilvægari en pólitískur rétttrúnaðar. Eða er ekki svo?