Það þurfti ekki greiningu eða sértæka námsörðugleika til að mér liði illa í grunnskóla, eins kom ég úr góðum aðstæðum og átti alltaf vini. Í raun fannst mér ekki gaman í skóla fyrr en komið var í háskóla erlendis, enda tók ég mér margra ára frí frá námi áður en ég vissi hvað ég vildi læra. Ég hafði raunar aldrei sett spurningarmerki við þetta fyrr en fullorðna ég fór að tala við fleiri um þessa staðreynd, fólk sem er jafnvel langskólagengið og góðum gáfum gætt, en þjáðist hreinlega í barnaskóla. Hataði hvern einasta dag.

Skólaforðun er tiltölulega nýtt orð yfir ekkert svo nýjan vanda. En þótt vandinn sé ekki nýr af nálinni er hann stærri en við höfum gert okkur grein fyrir.

Nú fyrir helgi fór fram ráðstefna á vegum Barna- og unglingageðdeildar þar sem ráðgjafarhópur, skipaður börnum á aldrinum tólf til sautján ára, kynnti niðurstöður könnunar á reynslu barna af skólaforðun. Þar kom fram að minnst þúsund börn forðast að mæta í skólann. Hvers vegna? Því þar líður þeim illa.

Tölurnar eru reyndar frá árinu 2019 og má leiða líkur að því að vandinn sé enn stærri eftir kórónaveirufaraldurinn og tilheyrandi samkomutakmarkanir sem bitnuðu illilega á ungu kynslóðinni og juku á einangrun vissra hópa. En ef rúmlega tvö prósent barna á skólaaldri forðast að mæta í skólann er ljóst að eitthvað þarf að hugsa upp á nýtt. Skólakerfið er hannað þannig að gerð er krafa um ákveðið hegðunarmynstur, svo sem að sitja kyrr, hlusta og taka leiðbeiningum. Þetta hentar ekki öllum en engu að síður gerir samfélagsgerð okkar ráð fyrir að allir passi í mótið og jaðarsetur þannig hóp, sem í sögulegu samhengi stóð jafnfætis öllum öðrum.

Hvað sem veldur því að barn vill ekki mæta í skóla, kvíði, þunglyndi, skynáreiti, tilfinninga- hegðunarvandi eða annað, þá þarf að finna betri lausnir með samvinnu á milli heilbrigðis- og menntasviðs. Bragarbót hefur orðið á framhaldsskólastigi þar sem fjölbreyttari leiðir hafa verið kynntar og iðnnámi gert hærra undir höfði.

Það gefur augaleið að hverfandi líkur eru á að óharðnaður einstaklingur sem loks losnar undan áratugar þjáningu í kerfi sem gerir ekki ráð fyrir honum, velji sér endilega að halda áfram að kveljast.

Þeir einstaklingar hætta í skóla um leið og færi gefst og takmarka þannig möguleikana á að finna hæfileikum sínum farveg – og við töpum öll.