Í umræðu um stjórnlausar hækkanir á húsnæðismarkaði er gjarnan bent á vanda ungs fólks við að ná þar fótfestu.

Enda er það varla á færi nema afmarkaðs hóps að snara fram nokkrum tugum milljóna í útborgun samhliða sínum fyrstu skrefum á vinnumarkaði.

Eina leið flestra er að treysta á útrétta hönd foreldra sinna. Þaðan þarf startgjaldið að koma. Þetta hafa kannanir staðfest.

Foreldrar færa þannig hluta eignamyndunar síðustu ára niður um eina kynslóð. Einfalt.

Eða sko, þetta væri einfalt ef allir þeir sem vilja kaupa á höfuðborgarsvæðinu væru svo lánsamir að eiga foreldra sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Staða ungs fólks er nefnilega æði mismunandi eftir því hvar ræturnar liggja. Eða öllu heldur, hvar rætur foreldra þeirra liggja. Og þegar ég segi rætur þá er ég að tala um steinsteypu.

Tökum dæmi.

Tvö sæmilega stór hús. Sambærileg að öllu leyti. Byggð á sama tíma fyrir sömu upphæð. Annað þeirra metið á 40 milljónir í dag, hitt á 140 milljónir. Afrakstur ævistarfsins.

Ástæðan: Annað húsið er á Vestfjörðum, hitt er í Vesturbænum.

Munurinn liggur sem sagt í breiddargráðunni. Í veruleika tveggja ólíkra heima verðmyndunar og byggðaþróunar.

En svona er hann. Munurinn á milli landsvæðis í vörn annars vegar og landsvæðis í sókn hins vegar. Framboðið, eftirspurnin og allt það. Lögmál markaðarins.

Nú er ég ekki að segja að þetta sé óeðlilegt á nokkurn hátt. Allt á sér sínar skýringar.

Það eina sem ég er að benda á er að staða þessara hópa er gerólík. Möguleikar þeirra til að stíga inn á sturlaðan fasteignamarkað er eins og munurinn á svörtu og hvítu.

Geta foreldranna til að hlaupa undir bagga með afkvæmum, sem af einhverjum ástæðum vilja koma undir sig fótunum í borginni, er ekki einu sinni nálægt því að vera sú sama.

Nema einhverjum finnist að fólkið í þorpinu hefði átt að sjá þessa þróun fyrir. Þegar þau veðjuðu á uppbyggingu í sjávarbyggð. Áður en auðlindin hrundi.

Tala nú ekki um ef þau, og öll þeirra afkvæmi, ætluðu svo ekkert að dvelja þar til eilífðarnóns.