Ég er ekkert sérlega handlaginn. Þess vegna fór ég í bóknám. Verst fyrir mig að svona 90 prósent allra á mínum aldri gerðu það líka. Sennilega valdi ég þessa fjölförnu lífsleið vegna þess að ég er ekkert sérlega handlaginn og líklega fyrst og fremst vegna þess að ég hef alltaf verið blygðunarlaus nautnaseggur.

Ég elska að hafa það gott og best finnst mér að fara út að borða sem hentar ágætlega vegna þess að ef þér eru almennt mislagðar hendur er miklu betra að njóta bara lífsins. Þess vegna elska ég að skella mér á hina ýmsu veitingastaði landsins og gera vel við mig í mat og drykk.

Eðli málsins samkvæmt saup ég þess vegna hveljur þegar ég las í blaði gærdagsins að hljóðið hefur aldrei verið þyngra í veitingamönnum andspænis erfiðum rekstrarskilyrðum og breyttu neyslumynstri. Þeir þurfi því líklegast að hækka verð en það gangi ekki upp því þá hætti fólk að mæta.

Veitingastaðir eru uppáhaldsfyrirtækin mín enda eru þetta fyrirtækin sem gleðja fólk eins og mig og láta mér líða vel. Því miður veit ég miklu meira um góðan mat en fyrirtækjarekstur vegna þess að ég valdi mér ekki rétta bóknámið.

Þess vegna væri svo gaman ef ég væri á betri stað í lífinu með menntun sem tryggði mér almennileg laun svo ég gæti látið drjúgan hluta þeirra renna til veitingahúsa og veitt þannig mínu uppáhaldsfólki verðskuldaðan stuðning.

En vegna þess að ég valdi vitlaust bóknám og er ekkert sérlega handlaginn á ég ekki nægan aur til að standa undir þeim lystisemdum sem ég tel mig eiga skilið. Nema í hádeginu. Þá er tveir fyrir einn.