Pólitísk forysta ræður úrslitum um velgengni þjóðar. Klúður vinstristjórnarinnar í kringum Icesave og árangur næstu ríkisstjórnar í viðræðum við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna eru andstæður sem sýna okkur mikilvægi þess að við stjórnvölinn sé stefnufast fólk með skýra sýn á hin stóru hagsmunamál þjóðarinnar. Fordæmalaus niðurstaðan í uppgjöri gömlu bankanna var lykilþáttur í endurreisn íslenska efnahagslífsins. Þetta var ekki sjálfgefin niðurstaða eins og nýútkomin bók, Afnám haftanna – Samningar aldarinnar?, eftir Sigurð Má Jónsson varpar ljósi á. Auðvelt er að gera sér í hugarlund mun verri niðurstöðu ef aðrir stjórnmálamenn hefðu fengið að ráða för.

Efnahagslegar hamfarir ríða yfir og nú er útlit fyrir að landsframleiðsla dragist saman um 13 prósent á þessu ári samkvæmt grunnsviðsmynd Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Ef sviðsmyndin rætist mun taka á bilinu þrjú til sjö ár að vinna upp framleiðslutapið að gefnum mismunandi forsendum um hagvöxt næstu ára. Til þess að unnt sé að vinna upp tapið á sem skemmstum tíma og leggja grunn að áframhaldandi lífskjarasókn er nauðsynlegt að marka skýra og skynsamlega stefnu. Ekki er síður mikilvægt að til forystu veljist fólk sem býr yfir þeim eiginleikum sem þarf til að fylgja stefnunni fast eftir.

Sumir hafa nú þegar dæmt sig úr leik. Þingmaður Samfylkingarinnar fullyrðir að tíföldun á umfangi listamannalauna og mikil fjölgun opinberra starfsmanna sé leiðin út úr kreppunni. Hann veltir upp þeim möguleika að ríkið eignist ráðandi hlut í Icelandair, flugfélagi sem glímir við heljarinnar rekstrarvanda. Samfylkingin leggur áherslu á magn umfram gæði og dælir út hugmyndum sem eru óskynsamlegar og illa grundaðar. Þankagangurinn á bak við þær er ekki dýpri en svo að ríkið stórauki útgjöld í alls konar verkefni sem hljóma vel í eyrum þingmanna flokksins. Á hinum endanum eru Píratar sem hafa lítið til málanna að leggja. Þess í stað gera þeir sér leik að því að drekkja starfsmönnum ráðuneyta í tilgangslausum fyrirspurnum.

Hagsæld þjóðarinnar á næsta áratug, rétt eins og á hinum fyrri, mun ráðast af því hverjir veljast til forystu og hvernig tekið verður á stórum hagsmunamálum þjóðarinnar sem fram undan eru. Ef flokkar með delluhugmyndir og daufan vilja komast til valda verður efnahagsbatinn lengri en ella. Hann verður sjö ár í stað þriggja, og tími og tækifæri glatast.

Höfundur er viðskiptablaðamaður á Markaðinum.