Fjörðurinn fagri fyrir austan, sem umgirtur er háum og nær ókleifum fjöllum, hefur alið af sé fleiri listamenn en við mætti búast miðað við höfðatölu. Fjölmargir eru þeir rithöfundar sem eiga ættir að rekja í dalinn milli fjallanna, svo og tónlistarmenn og aðrir andans menn. Mig langar að vekja athygli á tveimur skáldkonum frá Seyðisfirði sem lítið hefur farið fyrir í menningarumræðunni, en sem báðar hafa gefið út ljóðabækur sem geyma fallegar hugsanir, sérstaka rýni á umhverfi, bæði umhverfi hugans og þess landslags sem augað hefur numið. Mér finnst sérstök ástæða til að kynna þessar tvær konur því ljóðabækur þeirra verða ekki fleiri og þessar tvær því einstakar perlur á ljóðafesti Austurlands.

Guðný Marinósdóttir fæddist 11 september, 1944 á Seyðisfirði og lagði fyrir sig handavinnukennslu bæði á Egilsstöðum og á Akureyri og sérhæfði sig í textíllist frá Middlesex University í London. Árið 2019 gaf Félag ljóðaunnenda á Austurlandi út bók hennar Eins og tíminn líður. Í umsögn um höfund segir að þetta sé fyrsta ljóðabókin hennar en þetta verður jafnframt sú síðasta því Guðný lést á páskadag 2019. Ljóð Guðnýjar eru mjög hógvær, lágstemmd og innhverf og einkum eru náttúrulýsingar henni tamar sem hún tengir gjarnan við sitt eigið sálarlíf. Ljóðin bera ekki heiti en hér eru nokkur sýnishorn af ljóðagerð Guðnýjar:


Ljóðin mín eru litlar perlur
sem skolast upp á ströndina
með öldum lífsins.
Ljóðin mín eru litlar perlur,
ég tíni þær upp úr sandinum
og læt þær í litla skrínið
á efstu hillunni í hugskoti mínu.

Náttúrulýsing:
Þegar vetur rikir
og vindurinn gnauðar
á dimmum glugganum
þá hugsum við
um kærkomna fugla sumarsins
og ljúfan kliðinn
af kvaki þeirra.

Karlína Friðbjörg Hólm fæddist 29. september, 1950 á Seyðisfirði en þegar hún kvaddi Seyðisfjörð hélt hún til náms í hjúkrun og lauk því 1972. Karlína, eða Kalla eins og hún var oftast kölluð á Seyðisfirði, birti talsvert af ljóðum í Lesbók Morgunblaðsins á árunum 1987-1998, en fyrr á þessu ári gaf Félag ljóðaunnenda á Austurlandi út ljóðabók hennar Rætur og þang, sem er úrval af ljóðum, prentuðum og óprentuðum, sem Kalla átti í fórum sínum. Bókinni er skipt í nokkra kafla og er heiti kaflanna tekið úr ljóðasafni Köllu. Kaflaheitin geta verið býsna abstrakt svo sem „Sparruglur og spóaleggir“ og „Doppóttar fallhlífar“ en hver kafli er myndskreyttur af Maríu Dögg Hákonardóttur sem dregur fram inntak hvers kafla með teikningum sínum. Meðal annars skreytir teikning Maríu af Seyðisfirði einn ljóðakaflann þar sem ljóðin tengjast barnæsku Köllu í firðinum fagra. Ljóðmál Köllu er fjölbreytt, kraftmikið og hugmyndaflugið sterkt.

Í ljóðinu Mjöll má lesa eftirfarandi vetrarmynd:

Glotta grýlukerti
hrökkva sönggyðjur
við staka tóna
af snæviþjökuðu þakskeggi.

Lítil náttúrulýsing sem tengist lífshlaupinu með tilvísun í sögu landsins, kemur fyrir í ljóðinu Biðukollan:

Auðsveip biðukollan
ástundar landvinninga
fram með túngörðum.
Bæjarburstirnar bleikmálaðar í ár,
skýin bleikmáluð,
vonirnar kinnfiskasognar
kinnarnar meikaðar í ljósbleiku.

Og enn má finna svipmyndir frá síldartímanum á Seyðisfirði til dæmis í ljóðinu Hjólin snúast á ný:

Brælan hefur hopað út í
fjarðarmynnið,
fljóta í breiðfylkingu í daginn,
vonirnar
Klofvöðlurnar dragast syfjulegar
eftir malarveginum, þetta
óumflýjanlega
stigmagnandi viðskilnaðarhljóð.

Ljóð þessara tveggja seyðfirsku kvenna auka við ljóðafjölbreytni í bókmenntaforða landsins. Þetta eru ólík ljóð en eiga það þó sameiginlegt að ljóðmálið er ferskt, efnið sótt innávið í sál höfundar og í nánasta umhverfi.

Höfundur er prófessor.